140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Það er náttúrlega fyrst og fremst stjórnar bankans að skoða hvort mikil skekkja eða ójöfnuður sé í bókhaldslegri stöðu bankans, að hún sé eitthvað langt umfram það sem er hjá öðrum bönkum. Það hlýtur að þurfa skoðunar við ef það er reyndin. Það snýr þess vegna fyrst og fremst að þeim og Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum að skoða það ef þarna er eitthvert ójafnvægi sem menn þurfa að takast á við.

Varðandi afskriftirnar og svigrúmið, svo að það misskiljist ekki, þá er verulegur munur á því hvort verið er að tala um þær afskriftir sem færðar voru á milli gömlu og nýju bankanna og hvaða svigrúm er þar fyrir hendi. Við höfum farið yfir það hvað það er mikið eða hvað er til, hvað hefur safnast upp í hagnaði innan bankans, sem kemur í hlut ríkisins sem á verulegan hlut í þessum banka. Við hljótum að horfa til þess þegar hægt er að losa um (Forseti hringir.) þá fjármuni sem ekki er hægt fyrr en endurskipulagningin á skuldum í bankanum liggur betur fyrir.