140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

tillögur til lausnar skuldavanda heimilanna.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég get tekið undir þær hugmyndir sem hv. þingmaður vísar til og voru ræddar í gær og við ræddum líka áðan. Ég tel að við eigum að skoða það með líkum hætti og við gerðum 2010 og setjast sameiginlega yfir þetta stóra verkefni sem er skuldavandi heimilanna. Við eigum að meta nákvæmlega hver staðan er og fara yfir þær tillögur sem hafa komið upp á borðið í þessu efni, meðal annars þær tillögur sem hv. þingmaður nefnir frá Helga Hjörvar, og þær tillögur sem við höfum verið að skoða mjög „grundigt“ og fela í sér úrlausnir í gegnum skattkerfið fyrir ákveðna hópa sem verst eru staddir og skoða framvirkar aðferðir í því. Ég tel að þetta sé allt þess virði að skoða. Við eigum ekki að ýta neinu út af borðinu. En við verðum auðvitað að vinna út frá ákveðnum prinsippum um hvernig eigi að fjármagna þessar leiðir. Það prinsipp sem ég hef í þessu efni er að setja ekki allt á hvolf í samfélaginu og að þetta verði ekki bara reikningur á skattgreiðendur inn í framtíðina og framtíðarkynslóðir, annaðhvort í gegnum skuldir ríkissjóðs eða í gegnum lífeyrissjóðina. Allt þetta þurfum við að skoða og ég er opin fyrir öllum raunhæfum leiðum í þessu efni og sem við getum náð samstöðu um.

Þessa stundina er verið að reikna út kostnað við þær hugmyndir sem hafa komið fram frá Hreyfingunni. Verið er að skoða ítarlega leiðir um skattlagningu á séreignarsparnað sem ég tel að hafi ákveðna annmarka, og aðrar hugmyndir sem fram hafa komið, m.a. frá Framsóknarflokknum. Það á ekki að taka nema nokkra daga að reikna þetta út og skoða þannig að við höfum það allt fyrir framan okkur. Þegar það liggur fyrir finnst mér að kalla eigi alla flokka að borðinu til að fara yfir hugmyndirnar, meta hvað er raunsætt og hvort við getum náð samstöðu um leiðir til að gera enn betur (Forseti hringir.) og taka enn frekar á skuldavanda heimilanna en við höfum gert. Við erum því boðin og búin til að setjast að borði með stjórn og stjórnarandstöðu til að freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu í þessi mál.