140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[11:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þá yfir í önnur og mikilvægari mál, að minnsta kosti að mínu mati. Mér finnst stundum eins og það hafi gleymst, talandi um hrun og ákærur og annað, að árið 2008, fyrir þremur og hálfu ári, hrundi gjaldmiðillinn okkar með gríðarlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu, hvaða nafni sem þau kölluðust. Það stóð þá upp úr öðrum hverjum manni á Íslandi ef ekki öllum að eitthvað þyrfti að gera í gjaldmiðilsmálum. Í öllu falli gætum við ekki haft frjálsa fljótandi krónu, þannig að það lá fljótt fyrir að grípa þyrfti til gjaldeyrishafta, sem er auðvitað viss ósigur þeirra sem vilja frjálsræði og frjáls markaðsviðskipti í nútímasamfélagi, og við erum enn þá með gjaldeyrishöft.

Það hefur komið mér mjög á óvart að á þeim tíma sem liðinn er frá hruninu höfum við ekki varið nægilega miklum tíma í að ræða þetta stóra mál. Hver er framtíðarsýnin í gjaldmiðilsmálum á Íslandi? Ætlum við að hafa þetta áfram á þann veg að við séum upp á von og óvon sveiflugjaldmiðilsins komin eða ætlum við með einhverjum hætti að reyna að tryggja langtímastöðugleika á Íslandi, stöðugan efnahagsgrundvöll? Það stóð upp úr öðrum hverjum manni, eins og ég segi, þegar hrunið skall á að þetta væri meginverkefni íslenskra efnahagsmála, en mér hefur einhvern veginn virst síðan þá eins og þetta hafi gleymst.

Það var rakið ágætlega í fréttum ríkissjónvarpsins í gær að svo virðist vera sem flokkarnir á þingi hafi velflestir ekki markað sér neina skýra stefnu um það hver sé framtíðarsýnin í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Ég vil þess vegna brydda upp á þessari umræðu hér og til andsvara er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Spurningin er einfaldlega þessi: Hver er framtíðarsýnin? Hvert stefnum við?

Ég ætla að lýsa minni framtíðarsýn. Ég tel að við getum ekki búið við sjálfstæða krónu. Ég held að reynslan af henni sé orðin slík að það sé óhjákvæmilega niðurstaðan. Á sex árum hefur verð á dagvöru á Íslandi hækkað um 60%. Verð á bensíni hefur hækkað um 75% frá því í upphafi janúar 2008 þrátt fyrir að það hafi bara hækkað um 30% í dollurum. Þetta lýsir veruleikanum. Árið 1924 var ein króna á móti einni danskri, nú þarf 2.200 gamlar krónur til að fá eina danska.

Krónan hefur allan tímann verið sökkvandi gjaldmiðill. Það sem verra er, krónan hefur í för með sér þannig óstöðugleika í íslensku hagkerfi að næstum því ótækt er fyrir bæði heimili og fyrirtæki að gera plön til langs tíma. Þetta háir mjög mögulegum vaxtarbroddum í íslensku atvinnulífi, t.d. eins og í hugverkaiðnaði.

Menn tala oft um kosti við krónuna, hún hafi í för með sér sveigjanleika. Sá sveigjanleiki sem felur í sér þá efnahagsaðgerð að í rauninni er gengið fellt til þess að koma útflutningsatvinnuvegum til góða hefur í raun mjög takmarkaða þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf en hefur vissulega einhverja þýðingu. Okkar stærstu útflutningsatvinnugreinar núverandi eru bundnar takmörkunum. Sjávarútvegur er bundinn kvóta og álframleiðslan er líka bundin takmörkunum. Menn framleiða ekkert meira á Íslandi í þessum atvinnugreinum þótt gengið falli. Vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi, hugverkaiðnaðurinn, þarf stöðugleikann til að vaxa. Hann þarf ekki sveiflurnar, hann þarf ekki háa vaxtastigið. Þessi óstöðugleiki aftrar því atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Ég tel skynsamlegast að taka upp gjaldmiðilssamstarf við Evrópusambandið og ræða um það í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, fara inn í ERM II skömmu eftir og ef aðildin verður samþykkt. Þá fáum við stuðning til að halda uppi stöðugleika á Íslandi, þá þurfa íslensk heimili ekki lengur að borga 15 milljarða á ári í hærra vaxtastig. Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Hver er stefna hans og ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum? (Forseti hringir.) Og er hann sammála áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um að stefna beri að ERM II og leggja höfuðáherslu á gjaldmiðilsmál í aðildarviðræðum?