140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvaða viðræður hv. þingmaður hefur átt við hæstv. innanríkisráðherra um þessi mál, en tvennt vil ég segja við hv. þingmann.

Ef við lítum á Norðurland allt er líklegt að tvenns konar möguleikar séu uppi um aukin umsvif sem tengjast norðurslóðum á næstu áratugum. Það er í fyrsta lagi þjónusta við olíuleit og hugsanlega olíudrátt á þremur stöðum fyrir norðan Ísland, þ.e. okkar Drekasvæði, Jan Mayen-svæði Norðmanna og úti fyrir norðausturströnd Grænlands. Ég tel að öll þessi svæði verði þrautkönnuð. Hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég fyrirætlanir í þá veru, ekki bara okkar heldur kannski ekki síst Norðmanna, og skammt í að byrjað verði að bora fyrir Norðaustur-Grænlandi.

Ég hef sagt að ég telji að Íslendingar eigi, meðal annars af náttúruverndarorsökum, að stuðla að því að uppbygging þjónustu fyrir þetta verði á Íslandi, ekki t.d. á Jan Mayen þó að það sé mun skemmra þangað frá miðlínu okkar og Norðmanna. Ég tel rétt að við stuðlum að því að uppbyggingin verði hér.

Varðandi umskipunarhöfn verður fyrst að koma að því að hægt verði að sigla yfir norðurskautið. Þá er rétt að greina hv. þingmanni frá því að ég á í reglulegum samræðum við erlend stjórnvöld um það, síðast í gærkvöldi.

Við Íslendingar erum þeirrar skoðunar, að minnsta kosti ég, að þær leiðir sem menn hafa einkum verið að kanna séu ekki réttu leiðirnar. Ég tel að leið rétt austan norðurskautsins sé heppilegasta leiðin þarna yfir og vísa til þess að sterkar vísbendingar eru um að þar séu engir borgarísjakar, og að þar sé líka sú leið sem fyrst mun verða alauð á hverju ári. Það þýðir að ísstyrkt flutningaskip þyrfti bara að sigla þá leið í gegnum ís nýliðins árs, þess vegna yrði hún fyrst til að opnast. (Forseti hringir.) En þetta er sú leið sem vegna fjarlægðar frá meginlöndum er minnst rannsökuð.