140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

Hof á Akureyri og fjárframlög úr ríkissjóði.

425. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Menningarhúsið Hof er samkomuhús Akureyrarbæjar en um leið miklu meira en það og hefur skírskotun langt fyrir utan Akureyri, er vettvangur fyrir menningar- og listastarfsemi. Í rauninni má segja að það nái til alls landsins þó að menningarhúsið sé staðsett á Akureyri. Árlegur kostnaður við rekstur Hofs er um 330 millj. kr. og eins og gefur að skilja er þessi háa fjárhæð baggi á rekstri Akureyrarbæjar sem þarf í rauninni einn að standa undir rekstrinum.

Í upprunalega samkomulaginu um byggingu menningarhúss á Akureyri var gert ráð fyrir að kostnaðarskipting yrði 60% ríkið og 40% mundi falla á Akureyrarbæ miðað við að húsið mundi allt kosta um 1.200 millj. kr., framlag ríkisins þar með um 720 millj. kr. Þrátt fyrir að húsið breyttist og stækkaði voru þessar 720 millj. kr. verðbættar. Ríkið hefur frá upphafi sagt að það tæki ekki þátt í rekstrarkostnaðinum en Akureyrarbær hefur barist fyrir því lengi að svo verði með einum eða örðum hætti. Ég veit að fram hafa farið viðræður á milli Akureyrarbæjar og stjórnvalda í þá veru.

Það sem skiptir máli og ég held að taka verði inn í myndina er Harpa og sá kostnaður sem ríkissjóður hefur lagt í það mikla verkefni. Harpa mun kosta Íslendinga um 28 milljarða kr., átti að kosta 6, og þá eru ekki meðtaldir um 10 milljarðar sem voru afskrifaðir. Það má segja að kostnaðurinn hafi farið sex sinnum fram úr áætlun — þetta eru ótrúlega háar fjárhæðir. Þó að ríkið komi ekki að rekstri Hörpu nema óbeint í formi styrks til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, aukinnar húsaleigu og annars tel ég sanngjarnt að litið sé til Hofs á Akureyri með sambærilegum hætti og Hörpu og að ríkið komi á einhvern hátt inn í þann rekstur sem (Forseti hringir.) Akureyrarbær er að glíma við.