140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er nú á mörkunum að maður hafi skap í sér til að hefja þessa umræðu eftir það sem á undan er gengið en sem dæmi um það hvernig vinnubrögð Alþingis eru þá fór þessi ósk fyrir þingið í nóvember á síðasta ári og hér er ég loksins að komast á dagskrá með þetta mál.

Þessi umræða fjallar um þróun lyfjakostnaðar á Íslandi og kostnað sem Íslendingar bera af honum og ætlaði ég að byggja umræðuna á skýrslu frá ríkisendurskoðanda sem kom út í nóvember 2011 um þróun lyfjakostnaðar 2010. Afar merk skýrsla sem hefði þurft að komast tafarlaust til umræðu en vegna vinnubragða í þinginu er þetta fyrst á dagskrá núna og það er að verða kominn miður mars og þess vegna er umræðan kannski ekki alveg í takti við það sem hún hefði þurft að vera og málið því farið nokkuð mikið að kólna.

Varðandi lyfjakostnað ríkisins þá eyddi íslenska ríkið tæpum 18 milljörðum árið 2009 í lyf og árið 2010 var lyfjakostnaðurinn tæpir 17 milljarðar. Þarna hafði orðið smásparnaður þannig að það er einhver árangur að verða í þessum geira en samt ægilegar upphæðir sem ríkið þarf að bera vegna þessa.

Það kemur fram í skýrslunni í niðurstöðu- og ábendingakaflanum að að mati Ríkisendurskoðunar verði stjórnvöld að leita allra leiða til að fá aðgang að stærri mörkuðum og leitast við að fjölga lyfjum á markaði í því skyni til að lækka lyfjaverð og auka fjölbreytni. Það var samþykkt fyrir skömmu með lögum nr. 56/2011, um breytingu á lögum um opinber innkaup, að heimila mætti ráðherra innkaup á lyfjum, þ.e. í útboði með öðrum EES-ríkjum. Því langar mig til að velta því upp við ráðherra hvort reynt hafi á þetta vegna þess að það er þó nokkuð síðan þessi lög voru sett: Hefur íslenska ríkið farið í útboð á lyfjum með öðrum EES-ríkjum?

Mikið er deilt á það líka að skráning lyfja á íslenskan markað hafi hækkað mjög mikið, úr að mig minnir 30–40 þús. upp í 1,3 millj., og því spyr ég ráðherrann jafnframt að því: Hefur verið skoðað hvort hægt sé að lækka þessa upphæð, því að Lyfjastofnun sér um þessa skráningu og það er alveg óheyrilega dýrt fyrir nýja aðila að ætla að sækja á þann litla markað sem er á Íslandi?

Það hefur komið fram að Lyfjastofnun er að verða ansi stór stofnun, ein af þessum eftirlitsstofnunum, og telur starfsmannafjöldinn þar rúmlega 60 manns. Er það gríðarlega fjölmenn stofnun miðað við hlutverk hennar. Ég spyr því ráðherra jafnframt að því hvort það hafi verið skoðað hvernig þróun í mannskap þar hefur verið og hvernig hann nýtist.

Vegna þessa háa lyfjakostnaðar langar mig líka til að spyrja ráðherrann hvort hann hafi skoðað hver sé ástæðan fyrir því að hækkun á lyfjum almennt sé svo algeng eins og nú er. Hefur farið fram einhver úttekt á því hvernig stendur á þessari hækkun umfram það að hér varð bankahrun og gengi krónunnar raskaðist? Mig langar að fá svör við þessari spurningu.

Það sem beint var til velferðarráðuneytisins af Ríkisendurskoðun í skýrslunni sem gefin var út í nóvember 2011 var akkúrat þetta: Að leita þyrfti leiða til að fá aðgang að stærri mörkuðum og fjölga lyfjum á markaði, að skilgreina hvernig meta ætti árangur af því starfi og tryggja að lyfjaútboð mundi ekki leiða til fákeppni. Hefur þetta verið gert? Hefur verið farið að þessum tilmælum? Hvernig brást ráðuneytið við þessum ábendingum? Þetta samtvinnast meðal annars þeim spurningum sem ég kom með í upphafi og vonast ég til að ráðherrann hafi svör við flestu af því sem ég hef spurt hér. Málið er brýnt og afar brýnt að lyfjakostnaður einstaklinga og ríkisins lækki á komandi mánuðum og árum vegna þess að þetta er eitt af því sem er að sliga mörg heimili.