140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga málefni.

Það hefur verið gripið til allra þeirra markvissu aðgerða sem hægt er að gera og því þarf að halda áfram. Gripið hefur verið til fjölþættra úrræða og það er enn fleira sem þarf að gera. Ég ætla að ræða aðeins einn þátt sem ýmsir þingmenn hafa komið inn á, um að bæta aðgengi að ódýrum samheitalyfjum. Ég þekki þetta ákaflega vel á dýralyfjamarkaðnum. Þar koma öfgarnar skýrast fram í því hve lítill markaðurinn er og hversu erfitt er að fá aðgengi að ódýrum markaðslyfjum. Langflest lyf sem eru á þeim markaði eru þar af leiðandi háð undanþágum og er gríðarlega flókið og umfangsmikið verk að halda utan um þetta verkefni. Það sama á við á mannalyfjamarkaðnum þótt hann sé vissulega heldur stærri. Það er hins vegar knýjandi spurning hvort 320 þús. manna þjóð hafi hreint út sagt efni á að reka sjálfstæða lyfjastofnun, lyfjaeftirlit og lyfjaverðseftirlit eins og verið hefur og hvort ekki sé skynsamlegt, eins og hér hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum, að hefja viðræður við eitthvert þeirra Norðurlanda, til að mynda Danmörku eins og hér hefur komið fram. Færeyingar og Grænlendingar njóta umtalsvert betri kjara vegna þess að þeir hafa aðgang að mun fleiri lyfjum.

Þetta er verkefni sem ég hvet hæstv. ráðherra til að ræða við okkur í dag og síðan að taka upp í kjölfarið. Það er mikilvægast að við áttum okkur á því að þau fyrirtæki sem flytja inn lyf til Íslands eru mörg hver þau öflugustu í heimi. Mikilvægt er að hafa aðgang að þeim en þau fyrirtæki eru líka gjarnan með dýrustu lyfin. Það eru til samheitalyf hjá öðrum minni fyrirtækjum sem sjá sér ekki hag í því að flytja vöruna hingað inn til okkar, einfaldlega vegna þess að markaðurinn er svo lítill og hindranirnar sem við höfum sett upp í eftirlitskerfinu eru allt of miklar. Það er þar sem við verðum að bæta í og ég held að það sé gríðarlegan ávinning þar að sækja.