140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu en upp úr stendur samt að langmesta boðskapinn og fræðsluna flutti hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi hv. þingmaður. Hann varpar ljósi á það sem ég spurði um í upphafi, hvers vegna þessi einokun væri á Íslandi í ljósi þess að við erum aðilar að EES-samningnum og eins og allir vita er ein grunnstoð EES-samningsins frjálst flæði vöru. Hvers vegna falla lyf ekki undir frjálst flæði vöru innan EES? Ég vildi gjarnan fá svar við því hjá hæstv. velferðarráðherra. Hvað er það sem hindrar það að lyfin geti verið vara? Það kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að þetta væri lokað inni í einhverjum ranghölum.

Sem dæmi má nefna að rusl er flokkað sem vara á EES-svæðinu þannig að langt er seilst í þá átt.

Hæstv. velferðarráðherra svaraði ekki nærri því öllum þeim spurningum sem ég beindi til hans. Það verður líklega að liggja á milli hluta í ljósi þess hvers eðlis þessi umræða er, þetta er náttúrlega afar knappur tími til að taka á svo veigamiklu máli. Mig langar þó að lokum að benda á bls. 14 og 15 í þessari ágætu skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um þessi mál. Bent er á hvernig reynt hefur verið að leysa þetta vandamál og bent á leiðir til að auka lyfjaframboð á litlum mörkuðum eins og eru hér á landi, eins og til dæmis með fjöllandapakkningum og að Norðurlöndin verði eitt markaðssvæði og svo að kanna með útboð á Landspítalanum samkvæmt þeirri lagabreytingu sem var gerð í fyrra um lög um opinber innkaup. Ég vona að ráðherrann hafi tíma til þess að fara aðeins nánar yfir það í seinni ræðu sinni.