140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi verið kannað í nefndinni hvort bann við því að opinberir starfsmenn starfi fram yfir sjötugt rekist á við þetta ákvæði, vegna þess að velflestir heilbrigðisstarfsmenn eru opinberir starfsmenn. Ég spyr hvort ekki sé ástæða til að fara í allsherjarskoðun á því hvort þessi aldursmörk séu ekki barn síns tíma og eitthvað sem sé löngu orðinn tími til að breyta og skoða miklu nánar.

Nú er það þannig að mjög margir hafa eflaust gaman af því að gera ekki neitt eða sinna áhugamálum sínum, en hins vegar hefur það sýnt sig að það er manninum mjög mikilvægt að hafa hlutverk. Hann hefur yfirleitt hlutverk í gegnum starfið. Það hefur líka sýnt sig að þegar menn eru teknir úr hlutverki sínu, teknir úr sínu starfi, hallar oft mjög hratt undan fæti. Það getur verið mjög skaðlegt að skikka alla til að fara á eftirlaun, jafnvel þó að þeir séu mjög sprækir og jafnvel þó að þeir vilji ekki hætta að vinna.