140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[17:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi umsókn um aðild að Evrópusambandinu er komin að krossgötum. Ég tel reyndar að hún sé komin á það stig að erfitt sé að halda áfram því aðlögunarferli sem nú er að fara í gang án þess að Alþingi taki málið til endurskoðunar.

Í þingsályktunartillögu Alþingis sem samþykkt var með mjög naumum meiri hluta á sínum tíma, um að senda þessa umsókn til Evrópusambandsins, voru sett mjög afmörkuð og skýr skilyrði fyrir því hversu langt mætti ganga í því ferli og hversu langt mætti ganga í að gefa vilyrði fyrir afslætti á kröfum Íslendinga. Þar voru settar skýrar kröfur fram í öllum helstu málaflokkum okkar, þar á meðal í landbúnaðarmálum, í matvælaöryggismálum, í umhverfismálum, í sjávarútvegsmálum, í öryggismálum og í öðrum þeim köflum sem snerta sjálfsforræði okkar og við erum ekki reiðubúin að gefa eftir.

Það er líka staðreynd að umsókn Íslands hefur síðan þá klofið íslensku þjóðina í tvennt. Hvarvetna eru menn tvístígandi og velta fyrir sér hvert framhaldið sé í þessum efnum ef ekki verður staldrað við. Við verðum líka vör við aukna hörku í umræðunni og umsóknin setur bæði vinnu Alþingis og stjórnsýslunnar í visst uppnám því að margir sem samþykktu aðildarviðræður á sínum tíma og voru hlynntir því að umsóknin færi af stað litu svo á að um samningaviðræður væri að ræða. Ísland gæti samið og komið til aðildarviðræðna á sínum forsendum. Við sem vorum andvíg því að senda þessa umsókn vissum svo sem að þetta var blekkingaleikur en engu að síður var það látið í veðri vaka.

Þær staðreyndir komu svo rækilega í ljós að þessi umsókn hefur síðan algjörlega verið unnin áfram á forsendum Evrópusambandsins, enda hefur það komið skýrt fram af þeirra hálfu að ekki sé verið að sækja um aðild að sambandinu nema meiningin og ætlunin sé að komast inn. Það er ekkert sem heitir að kíkja í pakkann og sjá hvað er. Það hefur komið skýrt fram af hálfu Evrópusambandsins að Ísland verður að uppfylla öll þau meginatriði sem kveðið er á um í Kaupmannahafnarviðmiðunum, þ.e. þeim forsendum sem lagðar eru upp fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er í sjálfu sér ekki samningur við einn aðila sem slíkan heldur öll ríkin 27 eða 28, hvernig sem maður telur þau akkúrat á þessu augnabliki, og verður hvert og eitt þeirra að samþykkja frávik ef um þau er að ræða frá einhverjum atriðum varðandi heildarsamninga við Evrópusambandið, enda hefur aldrei verið gefið neitt vilyrði fyrir slíku.

Eins og segir hefur þetta komið rækilega í ljós og birtist ágætlega í viðtali við formann samninganefndarinnar fyrir skömmu í Morgunblaðinu 21. febrúar þar sem hann undirstrikar að hinir erfiðu kaflar í samningum við Evrópusambandið séu óopnaðir og ekki liggi fyrir hvenær þeir verði opnaðir, því ráði Evrópusambandið. Eins og formaður samninganefndarinnar, aðalsamningamaður Íslands, segir hefur Evrópusambandið sitt verklag. Þetta mátti okkur svo sem vera ljóst.

Þetta ferli er fyrst og fremst aðlögunarferli. Hvenær telur Evrópusambandið að Ísland sé tilbúið eða hæft til að yfirtaka öll þau atriði í regluverki og innri uppbyggingu Evrópusambandsins sem þar er krafist? Núna er staðan í sjálfu sér sú að svokallaðri rýnivinnu, þ.e. að bera saman lög og reglur Íslands og lög og reglur Evrópusambandsins, er að mestu lokið. Það liggur fyrir hver munurinn er og Evrópusambandið hefur jafnframt greint frá því hverju Ísland þurfi að aðlagast eða hvaða lögum og reglum þurfi að breyta. Ég er fullkomlega sannfærður um að þessi mál eru komin á þann endapunkt í ferlinu sem Alþingi getur heimilað og ekki verður haldið áfram án þess að taka málið til heildarendurskoðunar.

Þetta er undirstrikað, frú forseti, mjög rækilega í nýlegri skýrslu frá utanríkismálanefnd Evrópusambandsins, sem er tillaga til ályktunar fyrir Evrópuþingið um framvindu og stöðu aðildarviðræðnanna við Ísland og hvað þurfi frekar að gera. Þessi skýrsla er um margt athyglisverð að mínu mati eða það gildishlaðna mat og þær óbeinu tilskipanir sem þar eru gefnar til íslenskra stjórnvalda um hvar þurfi að bregðast við til að uppfylla framhald umsóknarinnar. Til dæmis er lögð áhersla á að Ísland verði að uppfylla þau viðmið sem Evrópusambandið setur fyrir aðildarviðræðum. Frá því er ekkert frávik. Því er reyndar fagnað og mjög furðulegt að það skuli koma fram í ályktun Evrópuþingsins að sérstaklega sé fagnað ríkisstjórnarbreytingum á Íslandi þar sem stendur að Evrópusambandið taki eftir og bendi á uppstokkun íslensku ríkisstjórnarinnar þann 31. desember 2011 og lýsi mikilli tiltrú á að hin nýja ríkisstjórn muni halda áfram samningum af enn meiri áherslu, þrautseigju, kappi og skuldbindingum við aðildarferlið.

Það kemur líka ítrekað fram í þessu áliti að í sjálfu sér sé ekkert annað fram undan en frekari aðlögun. Við þekkjum umræðuna núna um að lögð sé áhersla á að Alþingi samþykki heimildir til að taka á móti svokölluðum IPA-styrkjum, sem eru beinlínis í boði Evrópusambandsins, til að innleiða hér og byggja upp stofnanir og regluverk til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að Evrópusambandið hugsi þannig gagnvart þeim sem sækja um aðild af fullri einurð en hér á landi höfum við ítrekað sagt að sótt sé um aðild en ekki inngöngu. Nú liggur hins vegar fyrir að framhaldið er aðlögun og innganga. Þær upplýsingar eru svo rækilega komnar fram að ég tel að Alþingi eigi að taka málið til efnislegrar meðferðar á þeim forsendum að sú þingsályktunartillaga sem samþykkt var á sínum tíma og þær skilyrtu heimildir (Forseti hringir.) sem hún gefur til samninga séu komnar á ákveðinn endapunkt. Því finnst mér þessi tillaga hv. þingmanns vera réttmætt innlegg í þá umræðu.