140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt hefur breyst en þetta hefur legið fyrir og svo sannarlega fékk ég að finna það þegar ég setti fram skilyrðin fyrir áframhaldandi samningum í til dæmis landbúnaði. Ég studdist þar við og fór eftir þeim varnarlínum sem Bændasamtökin höfðu sett og gerði að mínum. Margir aðrir voru sannfærðir um að það væri rétt en þau viðbrögð sem ég fékk voru að Evrópusambandið teldi það ekki nægilegan grunn og að ef ég héldi fast við slík viðmið væri það hið sama og að segja stopp við viðræðurnar. Þá taldi ég bara ástæðu til að segja stopp og hélt fram minni kröfu. Það var ástæðan fyrir því að landbúnaðarkaflinn var ekki opnaður. Síðan voru það sjálfsagt rök fyrir því að það var talið nauðsynlegt að skipta um ráðherra og Evrópusambandið fagnaði (Forseti hringir.) því að fá nýjan ráðherra, breytta ríkisstjórn sem mundi fylgja þessum þáttum enn fastar eftir og einbeittara en ég hefði nokkurn tímann gert. Og ég geri það ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að stoppa þetta mál.