140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vék að um ummæli hæstv. forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi, að íslenska krónan, gjaldmiðill þjóðarinnar, væri ónothæf. Ég held að það finnist varla á byggðu bóli að forsætisráðherra heillar þjóðar skuli fara þannig orðum um eigin gjaldmiðil.

Við stöndum frammi fyrir mjög vandasömu verkefni sem er að aflétta gjaldeyrishöftum sem íslensk þjóð er föst í. Ef ekkert verður að gert stefnir margt í að við munum búa við gjaldeyrishöft til næstu áratuga. Forsenda þess að aflétta gjaldeyrishöftum er sú að íslenska krónan nái sér á strik. Við horfum því miður upp á þá þróun þrátt fyrir að útflutningstekjur þjóðarinnar séu núna í miklu hámarki í sjávarútvegi og áliðnaði, svo dæmi séu tekin, að gengið er að veikjast. Á sama tíma kemur forsætisráðherra þjóðarinnar fram fyrir alþjóð og talar við umheiminn um að íslenska krónan sé ónothæf. Íslensk þjóð á ekki skilið að slík manneskja leiði efnahagslíf þjóðarinnar.

Að sjálfsögðu eigum við að ræða kosti og galla krónunnar og mögulega upptöku annarra mynta. Það höfum við framsóknarmenn verið að gera, en við búum við krónuna og munum búa við hana á næstu árum. Því er mikilvægt að allir stjórnmálamenn tali þannig að tiltrú allra, þar með talið þjóðanna sem í kringum okkur eru, sé með þeim hætti að hægt sé að styðjast við þennan mikilvæga gjaldmiðil okkar. Ef krónan fellur hækka skuldir heimilanna í landinu, kaupmáttur dregst saman og þess vegna er ámælisvert að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli á þessum tímapunkti tala með þessum orðum um okkar eigin gjaldmiðil, krónuna.

Ég spyr (Forseti hringir.) Vinstri hreyfinguna – grænt framboð: Er hægt að sitja undir þessu?