140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

fjölgun starfa.

[10:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að bregðast við atvinnuleysi eins og þau vinnumarkaðsúrræði sem hæstv. forsætisráðherra nefnir. Eins er það auðvitað staðreynd að ýmsir sem hafa misst vinnuna hafa farið í skóla. Í sjálfu sér er það jákvætt.

Staðreyndirnar eru hins vegar þær að störfum hefur ekkert fjölgað. Við fórum djúpt í kreppunni og að þessu leyti erum við ekki að ná okkur upp úr henni aftur. Það eru ekki merki um að störfum sé að fjölga. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra aftur: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að fjölga störfum, tryggja að fleiri geti fengið vinnu? Er það ekki markmiðið, hæstv. forsætisráðherra, að reyna að búa til þær aðstæður í efnahagslífi okkar, stuðla að því með lagasetningu og aðgerðum stjórnvalda, að hér geti orðið til fleiri störf? (Forseti hringir.) Fram að þessu hefur það ekki tekist.