140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[12:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi kannski ekki talað nægilega skýrt. Ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna hvorki framfarastuðulinn GPI né það að við förum í þetta ferli. Hins vegar við það að setja báða þessa þætti á 2013, ef ég man rétt, með seinkun nefndarinnar og jafnvel þó svo að framfarastuðullinn hefði átt að vera kominn á áður veltir maður því kannski fyrir sér hvort við hefðum átt að taka umræðu akkúrat þarna um hvort við hefðum átt að klára þá útfærslu sem hv. þm. Skúli Helgason talaði um að menn væru byrjaðir að vinna að með framfarastuðulinn og hvernig aðferðafræðin er og setja hann þá kannski á 2014 og kostnaðar- og ábatagreininguna á 2016 þegar við vitum hvernig við ætlum að mæla og líka með tilliti til þess efnahagsástands sem við búum við í landinu. Við gætum þá í raun og veru beitt þessum tækjum þegar þau liggja fyrir en ekki sett þau á það fljótt að menn geti, hugsanlega í krafti einhverra skoðana sem menn vilja hafa, veifað þessu tré frekar en öngvu sem er þá alveg tilgangslaust og menn vita ekki hvað þeir eru að tala um. Það er ástæðan fyrir því að ég setti fyrirvara við þessa tvo þætti.