140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar nú að byrja á að segja að það er eiginlega ánægjulegt að fá þann dóm að þessi ríkisstjórn hugsi bara um skuldara því að stjórnarandstaðan orðar það yfirleitt með öðrum hætti þegar hún talar um hæstv. ríkisstjórn og meðferð hennar á skuldurum í landinu. Það er ánægjulegt að að minnsta kosti einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar telji að ríkisstjórnin hafi staðið sig gagnvart þeim hópi.

Ég vil bara árétta þann skilning minn, nefndarinnar og hv. framsögumanns nefndarálits að þessi tillaga nær til allra sem eiga viðskipti á fjármálamarkaði. Orðalag tillögunnar er meðal annars til komið vegna ráðgjafar frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um hvernig tryggt væri að þetta næði til allra fyrirtækja sem störfuðu á fjármálamarkaði. Niðurstaðan var þetta orðalag, til að tryggja að einhver fyrirtæki sem veita lán eða einhvers konar þjónustu á fjármálamarkaði falli ekki utan þeirrar skilgreiningar sem var í tillögugreininni eins og hún var lögð fram af mér og fleiri þingmönnum.

Ég er allsendis sammála hv. þingmanni um að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af sparnaði í þessu landi, en það að í tillögunni standi lán og talað sé um málefni skuldara er ekki á kostnað þeirra sem spara. Oft er það nú svo að þetta er sama fólkið.