140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði, sveitarfélögin hafa staðið sig vel varðandi öll verkefni sem tengjast grunnskólanum og grunnskólamálum og gert í rauninni allan rekstur þeirra að mínu mati fjölbreyttari en ella hefði verið.

Ég er fegin að heyra og er sammála henni í því að heilsugæsluflutningurinn til sveitarfélaganna mundi styrkja málefni fatlaðra. Í ljósi þess að meðal annars okkar flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur í gegnum tíðina verið á þeirri skoðun að menn eigi að líta til þess að færa málefni aldraðra líka yfir til sveitarfélaganna spyr ég hvort þetta sé þá ekki nauðsynlegt skref eða að minnsta kosti betra skref að taka að færa fyrst heilsugæsluna, sjá hvernig hægt er að nýta hana innan sveitarfélaganna og taka síðan ákvörðun um málefni aldraðra og flutning þess málaflokks yfir til sveitarfélaganna.

Síðan ítreka ég það sem hv. þingmaður sagði áðan, ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta mál verði afgreitt sem ég vona að verði. Ég sé að það er nokkurn veginn þverpólitískur stuðningur við það miðað við flutningsmenn og þá vona ég að menn skilgreini mjög vel hvað heyrir undir heilbrigðisþjónustuna þannig að menn fari ekki að rýra þennan flutning eftir á. Menn geta lært af reynslunni og allt það en menn verða að vera samhentir í að bæta nærþjónustuna svo kraftarnir fari ekki í að röfla um það sem menn hefðu getað komið í veg fyrir strax í upphafi.