140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

eldsneytisverð og ferðastyrkir.

[13:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi sérstaklega þetta frumvarp er þetta gömul umræða sem hefur oft verið tekin upp, þ.e. hvort taka ætti upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Það hefur verið í skoðun. Ég ætla ekki að tjá mig um það, ég hef ekki séð útfærsluna. Ef ég ætti þær upphæðir sem þyrfti til hugsa ég að ég mundi frekar beina þeim í þann hóp sem hv. málshefjandi hafði í huga í byrjun, þ.e. til þeirra sem eiga hvað erfiðast hér, eru með lægstu tekjurnar og þurfa að lifa af bótum. Ég mundi nýta þá peninga þar sérstaklega.

Það má taka fram um atvinnuleysistryggingarnar á Reykjanesi að þegar er búið að setja inn þann möguleika að fá ferðastyrk til að sækja vinnu innan svæðisins til að tryggja að fólk geti farið á milli staða þar. Það varðar atvinnulausa.

Síðan er það sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á núna, sem er valkostur í þessu og skiptir miklu máli, m.a. vegna hækkunar á bensínverði, það að auka almenningssamgöngurnar og tryggja að fólk eigi valkosti, geti komið sér á milli staða með fullnægjandi hætti. (Forseti hringir.) Fyrir fram get ég því ekki svarað því hvort þessi leið komi til greina fyrr en ég sé um hvaða upphæðir er að ræða.