140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ef við berum gæfu til að fylgja eftir þeirri áætlun sem hér er lögð fram gæti þetta mál orðið eitt af þeim sem seinni tíma menn munu minnast sem hinna merkustu á þessu kjörtímabili. Ég óska þeim sem hafa staðið hér að verki til hamingju og einkum að sjálfsögðu hv. þm. Skúla Helgasyni.

Það sem þetta sýnir okkur kannski öðru fremur er að umhverfisvernd og náttúruvernd eru ekki einhver lúxus eins og menn töldu einu sinni, eitthvað sem flæddi út af, heldur er umhverfisvernd og náttúrvernd beinlínis kjarninn í því hagkerfi sem við ætlum að byggja upp fyrir framtíðina. Þá kemur að því, forseti, að menn þurfa að taka erfiðar ákvarðanir á milli gráa hagkerfisins og græna hagkerfisins, á milli laxveiðireksturs og orkunýtingar. Ég vona að menn sem hér hafa sagt A (Forseti hringir.) segi líka B þegar að því kemur.