140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum nú til atkvæða um þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi feli hæstv. forsætisráðherra að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði. Löggjöf um þann markað er mjög flókin og sérhæfð og því er eðlilegt að skipa til þess sérstaka nefnd. Í ljósi sögunnar felast miklir hagsmunir fyrir almenning í þessari ályktun enda eru neytendur á fjármálamarkaði alltaf í veikari stöðu en þeir sem þjónustuna veita. Ég vænti mikils af þessari nefnd og niðurstöðum hennar.

Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vandaða og góða vinnu og þá sérstaklega hv. þm. Skúla Helgasyni sem tók að sér að vera talsmaður í þessu máli.