140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á svipuðum nótum og fyrsti fyrirspyrjandi áðan og tek undir að það á ekki að sýna neina eftirgjöf. Það hefur oft verið kallað „zero tolerance“ þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi og líka hryðjuverkaógn.

Um næstu mánaðamót rennur út tímabundið framlag til lögreglunnar upp á 47 milljónir til að efla baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Hefur ráðherra í hyggju að beita sér innan ríkisstjórnar og þings til að framlengja þetta framlag sem svo greinilega hefur skilað sér? Við í allsherjarnefnd getum svo sannarlega verið stolt af lögreglunni okkar sem tekur á þessum málum af festu en það er líka alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir í landinu. Ekki síst heyrir maður ólíkan tón, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, hjá annars vegar innanríkisráðherra og hins vegar lögreglunni. Ég er lögreglunni sammála. Ég held að hér sé gengið of skammt varðandi breytingar á þessu fyrirkomulagi þannig að við getum ekki (Forseti hringir.) algjörlega komið í veg fyrir að skipulögð glæpastarfsemi eins og (Forseti hringir.) oft hefur verið rætt um á síðustu dögum festi hér rætur.