140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé grundvallaratriði sem hv. þingmaður vekur hér máls á, þ.e. dómsheimildirnar sem veittar eru og síðan hvernig eftirliti er háttað. Það er ríkissaksóknari sem hefur þetta eftirlit með höndum. Það kom fram í máli fyrrverandi ríkissaksóknara að eftirlitið hefði verið í molum, það hefði hreinlega verið afskaplega lítið. Lögreglan kvartaði yfir þessu vegna þess að hún hefur kallað eftir mjög skýrum reglum. Hún vill láta hafa eftirlit með sjálfri sér. Það er ekki síst lögreglan sem hefur kallað eftir slíku eftirliti.

Ég hef trú á því að það sé komið í betra horf núna. Ríkissaksóknari hefur kvartað yfir fjárskorti til síns embættis, það hafi m.a. bitnað á þessu starfi. Ég leyfi mér að efast um að það sé mjög tímafrekt starf að fara yfir þessi mál eða yfirgripsmikið (Forseti hringir.) en ber þó virðingu fyrir yfirlýsingum ríkissaksóknara hvað þetta snertir. Ég (Forseti hringir.) hef sannfæringu fyrir því að þessi mál séu komin í miklu betra horf núna en þau voru áður, en þau þurfa að vera í góðu lagi.