140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál sem hefur verið reifað ágætlega í þessari umræðu. Ég tel þó að nokkuð skorti á að öllum meginsjónarmiðum sé haldið til haga sem ég tel rétt að gera nú þegar þessi umræða hefst í kringum framlagt frumvarp hæstv. innanríkisráðherra. Ég vil taka fram áður en lengra er haldið að ég tel að að mörgu leyti hafi tekist vel til að því er varðar aukna áherslu innanríkisráðuneytisins á þá ógn sem steðjar að, að því er varðar skipulagða glæpastarfsemi, með alþjóðlegri tengingu og að þar þurfi að taka á af festu. Hins vegar tel ég að í þessu sambandi þurfi að halda því til haga að við verðum að stíga afar varlega til jarðar í þessum efnum. Það hafa vinstri menn viljað gera alltaf og á öllum tímum, þ.e. í þágu mannréttinda fólks þegar heimildir lögreglu eru annars vegar.

Það verður alltaf að fara afar varlega í að auka rannsóknarheimildir lögreglu vegna þess að það er alltaf hætta á því að með því sé gengið á grundvallaratriði að því er varðar lýðræði, persónuvernd og mannréttindasjónarmið.

Í grunninn ætti auðvitað að ræða, og það er það sem hæstv. innanríkisráðherra hefur staðið fyrir af myndarskap, sjónarmið eða vangaveltur um hvað brýnast sé að gera til að styrkja samfélag. Þá er ég ekki bara að tala um lögreglu, heldur að styrkja samfélag í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Er besta leiðin aukning á þeim rannsóknarheimildum sem hér er rætt um eða er besta leiðin aukning á fjárframlögum og starfsafla til að byggja á þeim úrræðum sem til eru, þeim heimildum sem þegar eru fyrir hendi? Hvað er það nákvæmlega, virðulegur forseti, sem ekki er hægt með núgildandi heimildum en væri hægt með þeim breytingum sem hér eru boðaðar?

Það er gríðarlega mikilvægt að breytingar sem þessar og allar breytingar sem varða rannsóknarheimildir séu hvorki gerðar á grundvelli ótta né upphrópana. Hér erum við þingmenn og löggjafarsamkoman saman komin til að taka ákvarðanir á grundvelli yfirvegunar og framsýni. Við höfum gert margar mikilvægar lagabreytingar í tíð þessarar ríkisstjórnar sem eru til þess að auka öryggi borgaranna og sérstaklega öryggi kvenna. Ég nefni löggjöf sem kennd er við austurrísku leiðina, löggjöf um bann við kaupum á vændi og mansalsáætlun stjórnvalda. Þarna er um að ræða verulega réttarbót og ég velti fyrir mér hversu vel lögregla er búin til að fylgja eftir þeirri löggjöf og þeirri grundvallarbreytingu sem þar er fyrir hendi, enn og aftur þá til að staldra við hvort auknar heimildir séu réttasta og mikilvægasta leiðin.

Frelsi er eitt þeirra hugtaka sem eru hvað oftast rædd, þá gjarnan á tyllidögum og jafnan frekar af þeim sem eru til hægri í stjórnmálum. Frelsi, hvort sem er einstaklings eða samfélags, verður ekki rofið úr samhengi við lýðræði og mannréttindi. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að engar breytingar séu gerðar þar sem slík sjónarmið eru sett í hættu með einhverjum hætti. Það er alþekkt í sögunni og sérstaklega í pólitískri sögu að það kemur alltaf fram krafa og þrýstingur lögregluyfirvalda og lögregluafla, eða þess arms samfélaga á öllum tímum, um auknar heimildir með tilvísun til aukinnar ógnar, sama hver hún þá er, krafa um aukið eftirlit og auknar heimildir. Við munum viðbrögðin eftir 11. september og við höfum séð margar hliðstæður þar sem dregin er fram raunveruleg ógn, og raunverulegur ótti sem síðan er beitt sem röksemdum fyrir auknum heimildum lögreglu eða annarra valdhafa.

Það sem mig langar að halda til haga er að það er líka raunverulegur háski sem felst í því að stíga skref til aukinna heimilda. Við þekkjum dæmi um það annars staðar að heimildir eru nýttar til að fylgjast með fólki sem hvorki ógnar almannahag né öryggi ríkisins. Þess vegna er lykilatriði, eins og ágætlega hefur komið fram í þessari umræðu, að eftirlit með rannsóknarheimildum sé haft í öndvegi. Þess vegna vænti ég þess að nefndin taki til ítarlegrar skoðunar þær forsendur sem liggja til grundvallar þessu frumvarpi. Nefndin þarf að skoða hvort fullkomlega tryggt sé að pólitísk samtök og grasrótarhreyfingar séu undanþegin heimildunum. Þess er getið í greinargerð með frumvarpinu. Hugsanlega þarf að koma því betur fyrir í lagatexta. Fyrir þarf að liggja greinargóð úttekt á því hvaða brot liggja á bilinu fjögur til átta ár. Yfir hvaða brot ná nýjar heimildir sem núverandi heimildir ná ekki yfir? Ég vænti þess, virðulegur forseti, að nefndin fari ítarlega yfir álitamálin í þessu efni, þá sérstaklega þau sem varða mannréttindi og lýðræðissjónarmið, og árétta það sem áður hefur hér verið sagt, breytingar af þessu tagi má aldrei taka í tengslum við eða á grundvelli ótta heldur á grundvelli yfirvegunar og lýðræðissýnar.

Mér hefur virst umræðan hér meira og minna af þeim meiði að menn hafa kallað eftir ríkari heimildum en lagðar eru til í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra, þá jafnvel heimildum sem eru við lýði á Norðurlöndum. Þá tel ég að nefndin þurfi líka að fjalla mjög gagnrýnið um hvort umrædd starfsemi hafi verið upprætt á Norðurlöndunum á grundvelli þeirrar löggjafar, hvort fíkniefnaviðskipti hafi verið upprætt, hvort peningaþvætti hafi verið upprætt, hvort mansal eigi sér ekki lengur stað, hvort vændi sé ekki lengur til o.s.frv. Hafa forvirkar rannsóknarheimildir dugað í þeim samfélögum þar sem þær hafa verið til og þar sem löggjöfin hefur verið fyrir hendi?

Því miður gefst kannski ekki almennilega tækifæri til þess hér en það væri fullt tilefni til að ræða líka í löngu máli það alvarlega samfélagsmein sem upphafning og, með leyfi forseta, „glorífísering“ hópa af þessu tagi er í kvikmyndum, fjölmiðlum og dægurmenningu á Íslandi. Það er verulegt áhyggjuefni. Glæpir af þessu tagi þrífast líka í ákveðnu samfélagi sem er með einhverju móti jarðvegur fyrir slíka hópa. Við þurfum að taka saman höndum um að greina hvaða þættir í samfélaginu næra slíkar forsendur. Það gildir um þetta mál eins og öll stór viðfangsefni að það dugir ekki að ráðast að einkennunum heldur þurfum við jafnframt að hafa kjark til að ráðast á og skoða félagslegar og samfélagslegar forsendur fyrir því að slíkir glæpir viðgangist.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja aðkomu mína að þessari umræðu frekar en treysti hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fara yfir álitamálin til að hver þau skref sem stigin verða í þessu efni verði til góðs.