140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi þessarar ræðu minnar að taka það fram að eins og málið hefur þróast á þessu kjörtímabili, og það er rétt sem fram kom hjá að ég hygg hv. þm. Róberti Marshall hér fyrr í umræðunni, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í viðeigandi nefndum hafa á fyrri stigum málsins lagt sitt af mörkum til að bæta úr málinu og átti það sérstaklega við í upphafi, á fyrstu stigum þess, þegar setja átti á fót stjórnlagaþing og rætt var um að sett yrði á laggirnar stjórnlaganefnd og þjóðfundur.

Ég vil vegna þessa taka það fram að það blasir við að efnisleg umræða um breytingar á stjórnarskránni mun fara fram á komandi vetri. Það liggur fyrir eins og planið er núna hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við vitum að fram undan eru þingkosningar og þess vegna mun efnisleg umræða væntanlega fara fram á komandi þingi. Ég vil taka það skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki vísa frá sér þeirri ábyrgð á komandi vetri að leggja fram tillögur sínar um breytingar á stjórnarskránni þannig að það sé sagt hér í upphafi.

Annað er eins og málið hefur þróast, af því að í vetur höfum við fyrst og fremst tekist á um það hvernig breyta skuli stjórnarskránni og hvernig skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, að ekki hafa verið efni til þess af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að koma með efnislegar tillögur um breytingu á stjórnarskránni á þessu stigi.

Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir og hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti fyrir í dag á að hafa það hlutverk að leita umsagnar hjá þjóðinni um tillögur stjórnlagaráðs eins og þær lágu fyrir og var skilað inn til forsætisnefndar þingsins í fyrrasumar.

Ég spyr mig að því hver tilgangurinn sé í raun og veru með þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver er tilgangurinn með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar og spyrja svo óljósra spurninga sem eru í þessari tillögu? Hvaða veganesti hyggst meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fá út úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og hvernig ætlar meiri hlutinn að vinna með hana áfram á vetri komanda? Ætlar meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, eins og fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hér í dag, að leggja síðan fram efnislega tillögu stjórnlagaráðsins óbreytta eða hvaða breytingar eru það sem virðulegur meiri hluti hyggst gera á þessu máli fram að hausti? Hvað þýðir það að breyta tillögunni með tilliti til laga? Þarf ekki að segja fólki frá því hvað við er átt? Hver er tilgangurinn með því að spyrja spurninga af þessum toga? Er það til þess að spyrja spurninganna og skeyta engu um það hvert svarið gæti orðið eða er það virkilega vilji meiri hlutans að fá einhverja niðurstöðu hjá þeim sem taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu?

Það hefur komið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að á þeim tíma sem ráðstafað hefur verið til að ræða þetta mál — ég vil segja það enn og aftur — hefur efnisleg umræða um einstaka liði breytingar á stjórnarskrá ekki farið fram svo neinu nemi í nefndinni og þótt komið hafi gestir fyrir nefndina hefur efnisleg umræða um þetta mikilvæga mál ekki farið fram.

Spurningin sem stendur eftir er: Hvað vill meiri hlutinn fá út úr þessu? Á að fara eftir því? Hverju á að breyta í millitíðinni og til hvers eru þessar fimm spurningar í 2. lið tillögunnar? Í hvaða skjal vísa þær? Hvaða áhrif hafa þær á efni málsins þegar meiri hlutinn tekur til við að vinna með það eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna? Er í 2. lið, þegar við lítum til þessara fimm þátta, verið að vísa til tillagna stjórnlagaráðs? Af hverju kemur það þá ekki fram? Hvaða skilgreiningu á þjóðareign er verið að tala um í tillögunni? Er verið að tala um það sem stjórnlagaráð skilaði af sér, er verið að tala um tillögur stjórnlaganefndar eða er verið að tala um tillögur sem hafa verið lagðar fram á fyrri stigum? Hvað er nákvæmlega verið er að spyrja þjóðina um?

Þeir sem hafa komið fyrir nefndina hafa ítrekað og iðulega spurt þessara spurninga. Þeir segja spurningarnar ekki nógu skýrar, þær séu ekki nógu afmarkaðar og eins að það sé ekki hægt að koma fram með þjóðaratkvæðagreiðslu af þessum toga þar sem valmöguleikinn sé ekki bara já og nei heldur líka að taka ekki afstöðu. Þá blasir það við, eins og málið er sett fram, að það virðist miklu frekar lúta lögmálum einhvers konar skoðanakönnunar en þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er í raun og veru ekki verið að leita eftir svörum við tilteknum spurningum. Það er ekki verið að fá fram neina ákvörðun eða álit á einstökum þáttum. Til þess eru spurningarnar allt of ómarkvissar og óljósar.

Eina spurningin sem stendur aðeins út úr er spurningin um þjóðkirkjuna sem hefur verið rædd töluvert hér í dag. Í mínum huga er því engan veginn ljóst hver tilgangurinn með þessari þjóðaratkvæðagreiðslu er og mér finnst augljóst að hún er allt of snemma á ferðinni. Sé það vilji meiri hlutans, eins og þegar hefur komið fram, að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu er mjög einkennilegt að halda hana þegar málið er enn á því frumvinnslustigi sem það er á, þegar meiri hluti nefndarinnar, meiri hluti þingsins og þeir sem bera málið upp hafa ekki enn komið sér saman um hvaða álitamál það eru sem mestu máli skipta í breytingum á stjórnarskránni.

Síðan finnst mér það líka vera sjálfstætt álitamál að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu samfara forsetakosningum. Ég held að það sé augljóst að þær forsetakosningar munu þá snúast um breytingar á stjórnarskrá og breytingar á stjórnarskrá munu snúast um forsetakosningarnar. Hér er um ósambærilega hluti að ræða og mér finnst þetta mjög óheppilegt og undra mig á að meiri hlutinn skuli leggja þetta til með þeim hætti sem hann gerir.

Þegar hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fær þetta mál til meðferðar á milli umræðna er augljóst mál að það þarf að leita svara við fjölmörgum spurningum, ekki síst um framkvæmd þessara kosninga. Við höfum þegar fengið landskjörstjórn til óformlegs fundar í nefndinni, en það standa eftir gríðarlega mikilvægar spurningar framkvæmdalegs eðlis sem verður að fá svör við áður en þetta mál verður afgreitt. Hvernig ætla menn að telja og fá niðurstöðu í þessari atkvæðagreiðslu litið til kjörseðilsins sjálfs? Við skulum ekki gleyma því að atkvæðagreiðsla til stjórnlagaþings var einmitt ógild af því að framkvæmdin var ekki fullnægjandi. Hraðinn á þessu máli er slíkur að það er veruleg hætta á því að handvömm verði við framkvæmd kosningarinnar. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að nefndin leggi töluverða vinnu í að svara þeim spurningum sem þarf að svara þegar kemur að framkvæmdinni. Ég nefni talninguna. Ég get líka nefnt fleiri atriði, bara hreinlega framkvæmdaleg atriði hvað kosninguna varðar sem við vitum af fyrri reynslu að skiptir mjög miklu máli að séu skýr. Einnig skiptir máli að sá vilji sem meiri hlutinn er að kalla eftir í þessari umræðu geti raunverulega komið fram.

Hvað þýðir það ef stór hluti kosningarbærra manna tekur ekki afstöðu til tillögunnar? Hvað eru menn þá að segja? Vilja þeir breyta stjórnarskránni með öðrum hætti eða hvað er fólk að segja með því að taka ekki afstöðu? Hvað ætlar meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera með þá niðurstöðu? Hvað þýðir það þegar til efnislegrar umræðu kemur? Eða ætlum við bara að sjá hvað þeir sem taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu segja og athuga síðan næsta vetur eftir hverju við ætlum að fara og eftir hverju við ætlum ekki að fara? Mér finnst mjög einkennilegt að leggja þetta mál upp með þessum hætti.

Þó að þingmenn í meiri hlutanum telji að þetta sé — mér liggur við að segja sérviska í lögfræðingum þá er það dálítill galli ef menn skilja ekki spurningarnar sem þeir eiga að svara, það hlýtur að vera. Það er smávægilegur galli á málinu að ekki er hægt að skilja fyrstu spurninguna í tillögunni. Er það bara vandamál sem lögfræðingar eiga við að etja? Nei. Það mun auðvitað koma í ljós ef meiri hlutinn heldur áfram með þetta að það er engin leið (Forseti hringir.) fyrir kjósendur að svara þessari spurningu af neinu viti, engin leið.