140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara undirstrika að ég hef ekkert útilokað í þessu sambandi. Ég tel hins vegar að ekki fari vel á því að gera þetta saman, og athugasemdir mínar um hina þingtæknilegu hlið málsins lúta bara að því. Mér þætti fara illa á því hér, til dæmis við afgreiðslu á tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu, að allt í einu birtist á borðum þingmanna breytingartillaga um að jafnhliða ætti að greiða atkvæði um tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Það eru bara tvö óskyld mál og ég held að þau eigi ekki að bera að með þeim hætti í þinginu að þau komi fram sem breytingartillaga, ekki frekar en að tillaga um að hætta við byggingu Landspítalans eigi að koma fram sem breytingartillaga við þingmálið um fiskveiðistjórnina. Um þetta snúast þær athugasemdir sem ég færði fram um málið. (Gripið fram í.)