140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég kom inn á það í máli mínu hvernig þessu væri háttað í öðrum löndum. Ég held að það væri miklu skynsamlegra, eins og kom fram hjá mér, að skoða alvarlega hvort vilji sé til þess hjá þjóðinni að jafna búsetuskilyrði í landinu og jafnvel móta einhvers konar ákvæði í þá átt til að setja í stjórnarskrá.

Ég er ekki að segja að það væri skynsamlegt að setja fram spurningu hvað snertir nákvæmlega það. Það verður að vera hugsað þegar við leggjum fyrir spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu, þær verða að vera skýrt orðaðar og fyrir fram vitað nákvæmlega um hvað er verið að spyrja.

Ég kom inn á það í ræðu minni að ég held að það ætti að setja inn í stjórnarskrá ákvæði hvað þetta snertir. Flutningsmenn tillögunnar voru greinilega ekki með búsetu- og byggðajafnréttissjónarmið að leiðarljósi þegar þeir veltu fyrir sér og sömdu spurningar sem ætlunin er að leggja (Forseti hringir.) fyrir í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.