140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um fjórða atriðið þar sem spurt er eins og þar stendur „ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“ Væntanlega væru æðimargir, í það minnsta þeir sem búa á suðvesturhorninu og stórum kjördæmum, tilbúnir til að segja já við því. Álítur þingmaðurinn að ef spurt væri hvort menn vildu að landið yrði eitt kjördæmi að svar kjósenda yrði áþekkt því þegar spurt er um jafnt atkvæðavægi kjósenda um allt land?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari mínu hvort hann sé mér sammála um að taka eigi út úr þessu svarmöguleikann „tek ekki afstöðu“ vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að miða við að svar kjósanda sé annaðhvort já eða nei og með því að svara ekki eða skila auðu sé sú afstaða kjósandans næg.