140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í athugasemdum sem bárust nefndinni, m.a. vegna tillagna stjórnlagaráðs, og Ágúst Þór Árnason, held ég, og líklega Skúli Magnússon sendu inn velta þessir sérfræðingar vöngum yfir því hvers konar stjórnskipun muni verða á Íslandi ef þessar tillögur nái fram að ganga. Þeir velta einmitt upp sömu spurningum og hv. þingmaður velti hér upp varðandi umgjörðina á Alþingi, hvernig ásigkomulag þingsins verði og hvernig ákvarðanir verði teknar.

Í því sambandi er bent á að í einni af tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að styrkja mjög embætti forsætisráðherra. Þar á meðal er ákvæði um að ekki sé hægt að flytja vantraust á ráðherra nema tilgreina eftirmann ráðherrans um leið. Hvað í ósköpunum á það að þýða? Ég er að velta því fyrir mér, hv. þingmaður, hvort við séum að sjá hér tillögur sem einhverjir vilja greinilega fá samþykktar í þinginu, tillögur sem gera það að verkum að stjórnarandstaða á hverjum tíma muni vart geta borið fram vantraust eða reynt að hafa áhrif á ríkisstjórn nema koma sér saman um eftirmann einhvers ráðherrans. Mér finnst þetta vera stórmál. Ef við í stjórnarandstöðunni sem nú situr viljum til dæmis bera upp vantraust á einhvern ráðherrann, segjum forsætisráðherra, þurfum við að koma okkur saman um það hvort hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, Jón Gunnarsson eða Gunnar Bragi Sveinsson taki við því embætti. (Gripið fram í.) Þetta er draumurinn, hæstv. utanríkisráðherra, alveg rétt, þetta er draumurinn. Þarna er að mínu viti verið að (Forseti hringir.) draga mjög úr því aðhaldi sem stjórnarandstaðan hefur á hverjum tíma.