140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[02:05]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál og atburðarás kvöldsins og næturinnar er með ólíkindum og ég hef í raun og veru engu við það að bæta sem margir þingmenn hafa sagt hér hvað það snertir. Ég er hins vegar mest undrandi á því að á sama tíma og verið er að kalla til atkvæðagreiðslu þingmenn sem voru sjálfsagt margir hverjir farnir að sofa sé látið átölulaust að hér gangi þingmenn út úr húsi.

Ég vísa til 71. gr. þingskapa þar sem segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“

Ég spyr forseta: Höfðu ákveðnir þingmenn, til að mynda Framsóknarflokksins, þar á meðal formaður þingflokksins, fararleyfi frá forseta, til að fara héðan úr húsi? Verður það látið átölulaust að þingmenn geti farið svona á svig við þingsköp (Forseti hringir.) eins og raun ber vitni?