140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera sæla að vera sjálfstæðismaður í dag, sómi, sverð og skjöldur þjóðar hér í þinghúsinu. Mikið hljóta þingmenn flokksins að vera sáttir í hjarta og stoltir af framgöngu sinni og árangri. Nú hefur tekist í tvígang á örfáum dögum að tefja eðlilegan framgang þingstarfa og beita öllum þeim brögðum og ráðum sem tiltæk eru, enda markmiðið einstakt og sérlega mikilvægt. Ástæðan er einföld og öllum augljós; flokkurinn verður að koma í veg fyrir, með öllum ráðum, að landsmenn fái að segja álit sitt á fram komnum tillögum að breyttri stjórnarskrá. Þess vegna er rétt að beita öllum brögðum, taka málið í gíslingu, neita að veita afbrigði, setja á málþóf, óska eftir atkvæðagreiðslu um miðja nótt, ganga úr þinghúsi til að tryggja að nægur þingmannafjöldi sé ekki til staðar og leggjast síðan gegn því að síðustu að málin fái að ganga til 2. umr. Árangurinn er sannarlega til þess að vera stoltur af. Minnisvarði um einstætt afrek og árangur Sjálfstæðisflokksins í þingsögunni.

Hvers vegna er þetta svona mikið kappsmál? Það kom skýrt fram við 1. umr. málsins í gær. Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira og minna verið á móti því ferli sem stjórnarskrárvinnan hefur verið í frá því 2010. Flokkurinn er ósáttur við þá tillögu sem liggur fyrir að nýrri stjórnarskrá. Sú tillaga var ekki skrifuð af því fólki á þann hátt sem flokknum er þóknanlegur. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þjóðin fái að segja álit sitt á fram komnum tillögum. Flokkurinn leggst gegn fram komnum tillögum um spurningar til þjóðarinnar af því þær eru ekki þær spurningar sem honum eru þóknanlegar og þær eru ekki samkvæmt uppskrift flokksins. Flokkurinn vill jafnframt hafa tök á því hvernig eigi að leiðbeina þjóðinni í því að svara þeim spurningum sem eru uppi á borðinu. Aðalatriðið er þó að flokkurinn vill ekki neinar stórfelldar breytingar á stjórnarskránni. Þess vegna verða allra leiða leitað til að bregða fæti fyrir þetta mál eins og dæmi síðustu sólarhringa sanna, hvort heldur með úrtölum eða útgöngum.