140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við ummæli hæstv. utanríkisráðherra. Óneitanlega hygg ég að hæstv. utanríkisráðherra þætti það skrýtið ef eitthvert af meginmálum hans eigin ráðuneytis væri borið hér fram í þinginu af einhverjum öðrum ráðherra. Ég hygg að það þætti almennt skrýtið. Ég hygg að það þætti almennt skrýtið að velja dag sem hæstv. ráðherra væri fjarverandi til þess að taka slíkt á dagskrá. Hvernig færi á því að hæstv. fjármálaráðherra flytti skýrslu utanríkisráðherra eða eitthvað þess háttar? Það er auðvitað fráleitt. Og það er auðvitað fráleitt að taka þessa umræðu hér í dag þegar sá ráðherra sem stjórnskipulega ber ábyrgð á málaflokknum, hefur unnið að undirbúningnum, hefur leitt þá vinnu, lýsti því sjálfur yfir að verkefnið að klára sjávarútvegsfrumvörp væri svona eitthvað sem hann ætlaði að rumpa af á þrem, fjórum vikum. Af hverju fer þessi umræða fram í fjarveru hans? Eru einhverjar skýringar á því? Hver eru rökin fyrir því að láta þessa umræðu fara fram þegar þessi ágæti ráðherra er fjarverandi?