140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í vafa um að það mun draga úr möguleikum og hvata til frekari fjárfestinga í greininni. Ég segi það enn og aftur að langstærstur hluti skulda í sjávarútvegi er kominn til vegna fjárfestinga í greininni, í aflaheimildum og slíku. Það eru til dæmi um annað, óheppileg dæmi að mínu viti, en ekkert sem var ekki heimilt samkvæmt lögum, að ég best veit. Ég vil halda því til haga líka.

Það er að sjálfsögðu ekkert vit í því að ætla á 20 ára fresti eða svo að skipta um í greininni þannig að einhver annar eigi að gera þetta, einhver annar sé betri til þess. Hluti af þessu frumvarpi er í þá áttina. Ég skil til dæmis ekki alveg rökin fyrir því að ef aflaheimild skiptir um notanda fari 3% af henni til ríkisins. Það er fyrning að mínu viti, mjög hægfara fyrningarleið.

Kvótakerfið var ekki bara sett á til að auka hagkvæmni. Það var klárlega einn hluti kvótakerfisins því að það þurfti að auka hagkvæmni. Kvótakerfið var ekki síður sett á vegna þess að Íslendingar voru að ganga fram af auðlind sinni, voru að ofveiða fiskinn í kringum landið. Þess vegna fóru menn í að setja kvóta í sjávarútvegi. Og það var, merkilegt nokk, gert í samráði við þá sem þá voru í greininni. Menn ræddu saman og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í öðru en að fara þessa leið í stað þess að vera með mjög mikla óhagkvæmni og ofveiði á flestum tegundum sem verið var að veiða. Og auðvitað eru komnar margar viðurkenningar á íslenska kvótakerfinu en það er ekki þannig (Forseti hringir.) að það hafi verið eða sé gallalaust. Hér er hins vegar gengið allt of langt í ákveðnum hlutum.