140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er á þeirri skoðun að í þeirri stöðu sem við erum í í dag þá ættum við að vera að einbeita okkur að því að reyna að leita allra leiða til að skapa þau skilyrði að tekjur ríkissjóðs aukist, meðal annars með því að skapa þeim fyrirtækjum sem hér starfa lífvænlegt umhverfi þannig að þau geti aukið tekjur sínar og þar með greitt meira til ríkisins, og jafnframt að draga úr ríkisútgjöldum. Ég held að þetta ætti að vera meginlínan í öllu því sem við erum að gera.

Hv. þingmaður minntist á Evrópusambandið og hvernig ráðamenn þar líta til íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins og hrósa því í hástert hvar sem þeir koma — og því erum við Íslendingar stoltir af, á hátíðarstundum að minnsta kosti. En hvert getur þá sambandið verið á milli þess að vera afskaplega ánægður með þetta kerfi, eins og ráðamenn þjóðarinnar eru þegar þeir tala við embættismenn úti í Brussel í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, og hins að vilja kollvarpa því, kerfi sem hrósað er í hástert alls staðar annars staðar en hér heima fyrir?