140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir ræðu hans, sem er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna vegna þess að nauðsynlegt er að hlusta eftir öllum sjónarmiðum sem hér koma fram til að reyna að mynda víðtæka sátt um það mál sem hér er verið að ræða. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort við séum ekki sáttir við atriði eins og það að reyna að skapa sátt meðal þjóðarinnar, jafnt ólíkra pólitískra afla sem hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins, og gera þá sátt til lengri tíma. Stjórn fiskveiða verði blönduð leið annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar með veiðileyfum úthlutuðum til sértækrar byggðaaðgerðar, nýir aðilar geti komið inn í greinina og tryggt verði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar, að búinn verði til pottur, eða flokkur 1, sem verði með nýtingarsamning til 20 ára og samningar verði endurskoðaðir eftir fimm ár og í nýtingarsamningi verði meðal annars ákvæði um veiðiskyldu og takmarkað framsal. (Forseti hringir.)

Erum við ekki, virðulegi forseti, ég og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sammála um (Forseti hringir.) þessi atriði?