140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[21:59]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Herbertssyni fyrir ágætan hagfræðilegan fyrirlestur og yfirferð um sjávarútveginn og hagkvæmni í rekstri þar. Ég er sammála honum að auðvitað er mikilvægt að haldið sé utan um fiskveiðar og vinnslu á hagkvæmasta máta sem mögulegt er fyrir þjóðarbúið. Það hlýtur auðvitað að skipta máli fyrir okkur öll. Færa má margar sönnur fyrir því að með því að draga úr þeim óhefta sóknarþunga sem var hér í fiskimiðin og kvótasetja veiðarnar með þeim hætti sem gert var hafi menn náð fram margvíslegri hagræðingu.

Spurningin snýst hins vegar auðvitað um það hvert þessi hagræðing hafi skilað sér. Hún hefur skilað sér í uppbyggingu, í nútímatækni og þróun í sjávarútvegi sannarlega. Hún hefur skilað sér í betri kjörum til þeirra sem vinna í sjávarútveginum en við sjáum það líka að arðurinn sem hefur skilað sér inn í sjávarútveginn, talinn í auðlindarentu upp á tugi milljarða króna — lykilumræðan snýst um þann þátt málsins. Ég gat ekki skilið hv. þingmann áðan öðruvísi en svo að hann legði málið þannig upp að sjómenn væru að fá tvo fimmtu eða 40% af auðlindarentunni. Mér þykja þessar tölur með ólíkindum ef menn gefa sér að það sem standi út af í auðlindarentu séu um 60 milljarðar fyrir nýliðið ár. Þá er væntanlega búið að taka tillit til útgerðarkostnaðar, launa og annarra þátta. Ég spyr hv. þingmann: Hvað var þá að skila sér í milljarðatölum til sjómanna miðað við þær forsendur sem hann lagði upp með?