140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[22:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Því miður erum við ekki að ræða hliðarmálið sem er veiðigjaldið. Það hefði verið eðlilegt að ræða þau tvö mál saman því að þau hanga töluvert mikið saman og nokkrir hv. þingmenn hafa rætt það í þessum stól. Það hefði verið eðlilegt að ræða þessi tvö mál saman og hafa þá tvöfaldan ræðutíma því að hann er allt of stuttur.

Lítum á sögu útgerðar á Íslandi. Ég man þá tíð að hér voru bæjarútgerðir, t.d. í Hafnarfirði og Reykjavík, þær voru alltaf á hausnum, ekki myndarfyrirtæki, gekk illa. Svo má segja að í gegnum gengið hafi í raun verið um ríkisútgerð að ræða. Aftur og aftur þurfti að redda útgerðinni, koma skipunum úr höfn, af því að það var allt stopp og þá var gengið fellt. Þá var tekinn upp bátagjaldeyrir og ég veit ekki hvað og hvað þannig að í raun var um eitt heljarinnar ríkisútgerðarfyrirtæki að ræða. Ég óttast að það frumvarp sem við ræðum hér, frú forseti, sé einmitt það, að við séum að stefna í ríkisútgerðarfyrirtæki. Ég kem betur inn á það á eftir.

Það er yfirleitt viðurkennt af flestum, og það er tiltölulega auðvelt að sanna það, að eftir því sem framsalið er frjálsara, þeim mun meiri arðsemi er í útgerðinni. Ef tveir útgerðarmenn eiga tvö skip en hægt er að veiða sama afla með einu skipi og einni áhöfn er það hægt með algerlega frjálsu framsali. En eftir því sem framsalið er takmarkaðra, þeim mun óarðbærari verður útgerðin. Það má vel vera að það verði fullt af sjómönnum, fullt af bátum og mikil aðgerð úti um allan bæ.

Ég hef áður nefnt það, frú forseti, að ef við mundum til dæmis banna bændum að heyja með sláttuvélum og þeir ættu að heyja með orfi og ljá þá yrði heljarinnar fjör í sveitunum. Það er ekki spurning. Það yrði fullt af fólki úti á túnum að heyja með orfi og ljá. Það þekkir bóndinn sem er hér áheyrandi, hann mundi örugglega átta sig á því að það yrði mikið líf. En það yrði óskaplega dýrt gras. Ég er hræddur um að landbúnaðurinn yrði ekki mjög arðbær, hann yrði eiginlega mjög óarðbær við slíka aðgerð.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði hér gullkorn og það gladdi mig alveg óskaplega. Hann sagði: Ríkissjóður er óseðjandi. Þetta er eitthvað sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa löngum vitað og margir þingmenn Framsóknarflokksins líka og sumir hægri sinnaðir kratar í þingflokki Samfylkingar en mjög fáir í Vinstri grænum. En það er nefnilega að mínu mati allt að því staðreynd að ríkissjóður er óseðjandi. Þegar ríkissjóður lendir í þeirri stöðu að geta í fyrsta lagi takmarkað framsalið eins og hér er gert ráð fyrir og þess utan lagt á gjöld bara eftir þörfum þá mun hann leggja á gjöld eftir þörfum þangað til útgerðin er komin í þá stöðu sem við upplifðum einu sinni með bæjarútgerðum, gengisfellingum og öllu þessu. Þá mun umræðan ekki snúast um það hvað útgerðin græðir óskaplega mikið og hvort það sé mikið vandamál hvað hún græðir mikið heldur mun umræðan snúast um það hvernig við komum skipunum úr höfn í næstu viku; það er nefnilega eitthvað sem ég þekki.

Ég var mjög ánægður með það sem hæstv. ráðherra sagði. Hún talaði reyndar um sameign en í frumvarpinu stendur eign. Ég er dálítið upptekinn af því hver á þessa eign eða þessa veiðiheimild. Hún sagði að ríkið væri ráðsmaður þjóðarinnar. Það finnst mér vera dálítið snjöll hugsun, ekki eigandi heldur ráðsmaður. En stundum verða ráðsmennirnir ansi heimaríkir og fara að stjórna ansi miklu, sérstaklega þegar eigandinn er hvergi nærri og þjóðin er bara ekki nærri þessari eign sinni. En ég er hrifinn af þessu og ég hugga mig við það að handritin séu ekki allt í einu orðin eign ríkisins og Þingvellir o.s.frv., það er þá þjóðin sem á þetta.

Mikil breyting er orðin á viðhorfi útgerðarmanna, t.d. míns flokks. Nú eru menn farnir að tala um veiðiheimildirnar og kvótann sem eign ríkisins bara eins og það sé sjálfsagður hlutur. Fyrir fimm eða tíu árum hefðu menn tekið andköf hér ef einhver hefði sagt það og útgerðarmenn hefðu líka tekið andköf þannig að þetta er að breytast, þessi afstaða til kvótans. En ég er ekki viss um að það sé gott. Þetta er nefnilega að breytast í það að ríkið, ráðsmaðurinn og þjóðin eru orðin eitt og það er ríkið sem stjórnar þessu og þetta breytist hægt og rólega yfir í það að vera ríkisapparat.

Svo að ég fari í gegnum nokkur efnisleg atriði í þessu þá er verið að búa til tvo flokka. Flokkur 1 sem er einkaeign á kvóta, tímabundin einkaeign eða tímabundinn ráðstöfunarréttur í 20 ár að hámarki, styttist í 15 ár og síðan alltaf framlengt um eitt ár, þannig að menn búa við tiltölulega gott öryggi þangað til hinn óseðjandi ríkissjóður þarf meira, þá mun hann taka meira af því, það mun gerast, freistingin er svo mikil. Við endum með því að hafa pott 2 sem yfirgnæfandi því að það er hinn opinberi kvóti sem stjórnmálamenn geta gefið í strandbyggðir og keypt sér atkvæði fyrir. Þeir geta gefið það í sveitarfélög, þeir sem eru úr sveitarfélagi eins og Ísafirði eða hvað það nú er, og orðið vinsælir á þeim stað og ekki að sama skapi óvinsælir annars staðar. Það mun verða þróunin að flokkur 2 mun vaxa á hverju ári og flokkur 1 mun minnka og þetta endar með því að verða eitt ríkisbatterí.

Það sem er kannski verst í þessu eru framsalstakmarkanirnar. Í 12. gr. stendur að við hvert framsal hverfi 3% sem þýðir að menn fara ekki að skiptast dagsdaglega á kvótum vegna þess að í hvert skipti tapa þeir einhverju, 3%, og þetta er verulegur hemill á frjálst framsal sem þýðir, eins og ég sagði áðan, minni arðsemi. En mesti hemillinn á framsal er byggðatakmörkunin því að það má ekki framselja nema 20% úr ákveðinni byggð eða sveitarfélagi eða byggðarlagi, sveitarfélagi eða landshluta, eins og það er kallað hér, og það virðist vera valkvætt fyrir ráðherrann. Þarna eiga alltaf að vera 80%, það má ekki fara burt. Og ef það skyldi fara burt þá er ríkissjóður skyldaður til að kaupa það. Hann á að selja það aftur inn í viðkomandi sveitarfélag, byggðarlag eða landshluta, reyndar veit ég ekki á hvaða verði. Ég geri þá ráð fyrir að það verði töluvert lægra verð en það var keypt á. Ríkissjóður er því farinn að tapa þarna og ég ætla einmitt að spyrja hæstv. ráðherra að því: Á hvaða verði er í 4. mgr. 13. gr. gert ráð fyrir að ríkið selji kvóta sinn sem það hefur eignast með því að ganga inn í samning sem gerður var umfram 20% út úr viðkomandi sveitarfélagi eða landshluta? Þetta er alveg gífurlegur hemill á framsal.

Nú er það þannig að um allan heim er eðlileg þróun á byggðum, byggðir eru að þróast. Borgir rísa, borgum hnignar, landsvæði þrífast, landsvæðum hnignar o.s.frv. Siglufjörður var einu sinni mjög blómlegur staður, svo hnignaði Siglufirði vegna þess að ákveðnar breytingar urðu í atvinnumálum, í samgöngumálum, í nálægð við miðin o.s.frv. Þetta er eðlileg þróun. Og það getur verið mjög varasamt og hættulegt að nota fiskveiðistjórnarkerfið til að skekkja þá eðlilegu þróun. En það er það sem menn eru að gera.

Ef menn ætla að bjarga einhverju byggðarlagi er mun eðlilegra að bjóða því byggðarlagi aðstoð í hvaða atvinnugrein sem er, ferðaþjónustu, landbúnaði, sjávarútvegi, tölvumyndagerð eða eitthvað slíkt, en ekki að skilyrða það við sjávarútveginn einan. Það er það sem menn eru að gera og þessir styrkir koma hvergi fram af því að þeir eru duldir. Þetta eru duldir styrkir, þeir felast í takmörkunum. Eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom svo vel inn á mun þetta fjölga sjómönnum, fjölga bátum og minnka arðsemina. Og hver skyldi tapa á því, frú forseti? Einmitt þjóðin því að þetta er undirstöðuatvinnugrein og þjóðin stendur og fellur með arðsemi þessarar atvinnugreinar. Við erum reyndar með tvær aðrar sem eru áliðnaðurinn, sem hefur sem betur fer blómstrað mikið, og svo ferðaþjónustan sem blómstrar líka vegna lágs gengis krónunnar. Það er því mjög hættulegt að veita dulda styrki sem enginn sér hvað eru háir.

Svo er talað um kvótaþing, það er náttúrlega eitt sovétfyrirbærið, þau eru nokkuð mörg. Þetta er bara þannig kerfi sem verið er að byggja upp. Þetta er ríkisútgerð — ohf. ætti það að heita.

Ég held að ég hafi ekki fleiri spurningar um þetta frumvarp en mig langar til að bera það saman við frumvarp sem ég hef flutt um að dreifa kvótanum eða aflahlutdeildunum á íbúa landsins. Það er að mínu mati miklu nær þeirri markaðshugsun sem ég er að hugsa um. Þar er framsalið nefnilega algerlega frjálst og þó að aflahlutdeild núverandi kvótahafa sé takmörkuð og skert um 2,5% á ári, eða afskrifað niður í núll á 40 árum, hygg ég að með því að hafa framsalið algerlega frjálst og með því að skilgreina þetta sem eign viðkomandi aðila sé það miklu meira virði en það sem við erum að tala um hér. Útgerðarmenn mundu græða á því að hafa það kerfi jafnvel þótt það sé skert. En hvað kemur í staðinn? Aflahlutdeildunum er dreift á alla íbúa landsins. Í mínum huga er ekki hægt að komast nær því að kalla þetta þjóðareign því að hvað er þjóð annað en íbúar landsins?

Ég gekk meira að segja svo langt að skilgreina íbúa landsins, það er fólk sem hefur búið hér í fimm ár og verið skattskylt í fimm ár, ekki endilega borgað skatt. Útlendingur sem flytur til Íslands, eftir fimm ár tekur hann þátt í pottinum. Ég gerði líka ráð fyrir því að börn þeirra sem eru íbúar landsins, þ.e. þeirra sem hafa borgað skatt í fimm ár eða verið skattskyldir í fimm ár, hvort sem þeir borga skatt eða ekki, teldust líka íbúar. Hjón með tvö börn fengju því fjórfaldan part. Þetta finnst mér vera bæði mjög félagslegt og mjög sanngjarnt.

Það skemmtilega við þessa hugsun er það að útgerðarmenn mundu jafnvel græða, eign þeirra yrði jafnvel verðmætari eftir þessa breytingu þrátt fyrir að það sé skert vegna alls þess óöryggis sem þeir hafa búið við síðustu 20–30 ár, en vissir flokkar hjá Alþingi hafa haft það að stefnumarki að taka af þeim eignina bótalaust. Þegar menn búa við slíkt óöryggi ár eftir ár þá vex arðsemiskrafan til greinarinnar, menn hætta að fjárfesta o.s.frv. Ég er alveg viss um að ef mitt frumvarp yrði samþykkt í dag mundu fjárfestingar byrja á fullu í útgerðinni á morgun. Þjóðin yrði mjög ánægð með eignarhaldið á kvótanum af því að hún fengi kvótann. Hver einasti maður fengi sín 23 kíló sem hann mætti veiða í 40 ár á hverju einasta ári, aftur og aftur um alla framtíð. Þá færu nefnilega saman hagsmunir útgerðar og hagsmunir Jóns og Gunnu, hins venjulega Íslendings, sem ég kalla þjóð.

Ég er mjög mikið á móti því, eins og segir í frumvarpinu og eins og margir halda, að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé sama og þjóðin. En þannig lítur það út fyrir mér. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er í þessu frumvarpi þjóðin. Hann segir ekki: Ég er ríkið. Hann segir: Ég er þjóðin. Mér finnst frumvarpið allt bera þess merki að við séum að stefna í eina allsherjarríkisútgerð, ekki bæjarútgerð heldur stóra ríkisútgerð, þar sem ríkið ákveður veiðileyfagjaldið eftir þörfum. Og eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði þá er ríkissjóður óseðjandi.