140. löggjafarþing — 79. fundur,  29. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[02:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er álitamál hvort þessi kerfisbreyting mundi kalla á einhvers konar ágreining á grundvelli eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar sem væri þá væntanlega byggð á því að um óbein eignarréttindi væri að ræða á grundvelli núverandi varanlegrar hlutdeildar eða eftir atvikum á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég kann ekki um það að segja.

Mig langar til að koma aðeins nánar að því hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn telur að skynsamlegt sé að gera í dag. Ég tel skynsamlegt að taka veiðigjaldið til endurskoðunar og meta það upp á nýtt í þverpólitískri vinnu að hve miklu leyti svigrúm er til að hækka það gjald. Ég tel líka að skynsamlegt sé að reyna að koma á sátt um það hversu háu hlutfalli af heildaraflanum eigi að verja í félagsleg byggða- og atvinnutengd úrræði. Fastsetja þá tölu þannig að þeir sem eru í aflahlutdeildarkerfinu hafi fast land undir fótum (Forseti hringir.) og séu tilbúnir til að taka á sig skerðingar þegar illa árar gegn því að fá að njóta þess þegar stofnarnir taka aftur við sér. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt atriði.

Fleira hefði ég nú viljað nefna sem grundvallaratriði. Það kemur fram (Forseti hringir.) í niðurstöðum sáttanefndar margt af því sem við getum stutt, en þetta eru mjög mikilvæg atriði.