140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

orð þingmanns um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

[10:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í gærkvöldi hélt hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra Jón Bjarnason hreint magnaða ræðu sem gaf innsýn í vinnubrögð ríkisstjórnarinnar en þó einkum og sér í lagi er varðar sjávarútvegsmálin. Hann lýsti meðal annars tilurð eins af gömlu fiskveiðistjórnarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar og í máli fyrrverandi ráðherra kom fram að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og hugsanlega fleiri ráðherrar hefðu tekið virkan þátt í að móta það sem síðar varð að helsta ágreiningsefni málsins og þessir sömu ráðherrar leyfðu sér að gagnrýna opinberlega og kalla jafnvel frumvarpið bílslys eins og hæstv. utanríkisráðherra gerði.

Það kom líka fram í máli hv. þingmanns að forusta ríkisstjórnarinnar hefði beitt bellibrögðum eins og ráðherrann orðaði það, hefði viljað fela fyrir almenningi að verið væri að vinna þetta frumvarp og hvers eðlis það væri á meðan verið væri að gera kjarasamninga. Það mátti ekki fréttast hvað ríkisstjórnin ætlaði sér í sjávarútvegsmálum fyrr en búið væri að ganga frá kjarasamningum.

Jafnframt upplýsti hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra að hæstv. núverandi forsætisráðherra hefði ekki einu sinni viljað sjá frumvarpið þegar hann kom með það inn í ríkisstjórn. Þá hafði frumvarpið að sögn hv. þingmanns legið í nefndinni mánuðum saman án þess að menn hefðu haft fyrir því að fara yfir athugasemdir við það. Ráðherrann hefði sjálfur tekið upp á því að biðja um athugasemdir í vinnu í ráðuneytinu en vegna þess að málið var komið inn í ríkisstjórn hefði hæstv. núverandi forsætisráðherra ekki einu sinni viljað sjá (Forseti hringir.) frumvarpið. Eru þetta boðleg vinnubrögð þegar kemur að jafnstóru og mikilvægu máli og sjávarútvegsmálin eru?