140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún fór ágætlega yfir þetta mál eins og það blasir við okkur í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Mig langar aðeins til að spyrja hana um þá atkvæðagreiðslu sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hyggst freista að halda í sumar samhliða forsetakosningum: Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að sú atkvæðagreiðsla muni hafa á forsetakosningarnar sjálfar? Nú hefur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar viljað halda því fram að þessi atkvæðagreiðsla muni ekki blandast inn í forsetakosningarnar, að hægt sé að aðskilja umræðu um þau mál. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé nokkuð torsótt, sérstaklega af því að forsetaframbjóðendur kunna mjög líklega að verða spurðir að því hvaða álit þeir hafi á einstökum þáttum núgildandi stjórnarskrár, og ef fyrir liggur þar að auki að greiða þurfi atkvæði um svona óljósar spurningar eins og hér er um að tefla finnst manni ekki ótrúlegt að frambjóðendur séu spurðir að því hvað þeim finnist um það.

Mig langar til að leita eftir skoðun hv. þingmanns á þessu ráðslagi, að blanda saman forsetakosningum og atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðsins. Jafnframt, telur virðulegur þingmaður loku fyrir það skotið að hvaða forseti sem kjörinn verður í júní muni, ef honum sýnist svo, beita málskotsréttinum sem hefur nú verið beitt í þrígang og hreinlega neita að skrifa undir ný lög til stjórnarskipunarlaga?