140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:14]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hótunin hefur falist í því að reyna að fá stjórnarandstöðuna til að tala fram á miðnætti er það hótun gegn þjóðinni en ekki gegn þinginu eða meiri hlutanum.

Ég fékk ekki svar við spurningum mínum því að hv. þingmaður sagði orðrétt að þingmönnum minni hluta í nefndinni hefði verið hótað að þeir mundu hljóta verra af ef þeir hlýddu ekki. Ég ítreka spurningu mína því að ég vonast til að henni verði svarað í síðara andsvari. Hver hótaði hverjum og hver voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar eða minni hlutans í nefndinni í þessu máli? Gerði hann athugasemdir eða kvartaði til yfirstjórnar þingsins vegna hótana? Ég held að það sé mjög mikilvægt ef það er þannig að þingmenn upplifi, ég tala nú ekki um á nefndarfundum og í þingsal, að þeim sé hótað því að þeir hljóti verra af ef þeir geri ekki eitthvað sem meiri hlutinn leggur til að verði gert, að upplýst verði um þær hótanir. Ég vonast til að þingmaðurinn svari því skýrar hér á eftir í hverju hótanirnar voru fólgnar o.s.frv.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann út í stjórnarskrána sem slíka. Ég held að það hafi verið almenn skoðun í samfélaginu eftir hrunið að endurskoða þyrfti ýmsa hluti og þar á meðal stjórnarskrána, það var í umræðunni, ég vil minna á þjóðfundinn og fleiri slíka fundi sem voru haldnir mjög víða um land. Ég sat nokkra slíka fundi og þar kom stjórnarskráin oft til umræðu. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að ástæða sé til að endurskoða stjórnarskrána sérstaklega og þá hvernig? Í heild sinni, einstaka þætti hennar og þá hvaða þætti? Eða er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að stjórnarskráin eins og hún stendur í dag sé fullgild og óþarfi sé að breyta henni, ekki sé ástæða til að lagfæra neitt sem þar er og hún geti staðið áfram óbreytt?