140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:23]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Virðulegur forseti. Eitt mikilvægasta málið er varðar uppgjör við efnahagshrunið er að vinna að nýrri stjórnarskrá og að það starf verði unnið í samráði við þjóðina. Auk þess er brýnt að þjóðin fái að greiða atkvæði um hina nýju stjórnarskrá eftir að hún hefur fengið lokaafgreiðslu þingsins. Ástæðan er sú að þingið mun væntanlega gera breytingar á tillögum stjórnlagaráðs í samræmi við umsagnir og umræður um einstök ákvæði sem nauðsynlegt er að bera undir þjóðina.

Við ræðum hér tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um tiltekin málefni þessu tengd. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að koma að störfum nefndarinnar á allra seinustu stigum þeirrar vinnu. Þar skrifaði ég undir meirihlutaálit en þó með ákveðnum fyrirvara. Meðal þeirra mála sem rædd hafa verið og gagnrýnd í tillögum stjórnlagaráðs eru ýmsar takmarkanir og fyrirvarar sem gerðir eru á fyrirvörum almennings til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir þessara fyrirvara geta talist eðlilegir en aðrir orka tvímælis, t.d. að þjóðréttarskuldbindingar Íslands við önnur ríki geta samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs ekki farið í þjóðaratkvæði að kröfu almennings. Mér finnst því rétt að spurt sé sérstaklega um þessa þætti í fyrirhugaðri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafnaði þeirri tillögu á fundi sínum og er það miður. Því hef ég ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur og hv. þm. Valgeiri Skagfjörð lagt fram breytingartillögu við tillögur nefndarinnar.

Það er mat okkar sem flytjum tillöguna að margar þjóðréttarskuldbindingar geti verið þess eðlis að mikilvægt sé fyrir þjóðina að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þau mál. Auðvitað er ekki gott að segja í hverju slík mál væru fólgin en þó mætti hugsa sér að þetta gæti tengst nýtingu náttúruauðlinda, svo sem olíuauðlinda, og flutningi hættulegra efna eða jafnvel vopna ásamt skuldbindingarsamningum við erlend ríki eða stofnanir svo einhver dæmi séu tekin.

Á síðustu fundum nefndarinnar voru gerðar breytingar á þingsályktunartillögunni og nefndaráliti sem margar eru mjög til bóta. Ég vil þó sérstaklega benda á að nú kemur fram í áliti nefndarinnar að þegar stjórnarskrá hefur verið afgreidd samkvæmt lögum verði hún borin undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt tel ég afar mikilvægt að sé öllum kjósendum ljóst núna þegar til stendur að leita álits þjóðarinnar um tiltekin afmörkuð mál í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. þm. Ólöf Nordal minntist á það í sinni ræðu hvort meiri hluti nefndarinnar hefði velt fyrir sér hvað gerðist ef forseti synjaði stjórnarskránni. Það eru í sjálfu sér óþarfaáhyggjur miðað við þessa bókun meiri hluta nefndarinnar því að það til stendur að hin endanlega stjórnarskrá fari í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er afar mikilvægt.

Annað sem kom inn á síðustu metrunum í starfi nefndarinnar var að spyrja um afstöðu til þjóðareignar á auðlindum í náttúru Íslands, þó með þeim hætti að undanskildar eru þær náttúruauðlindir sem eru í einkaeign enda er það þá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Einhverjum kann að bregða við og spyrja hvort þetta þýði að landeigendur geti gengið um landsins gæði að eigin geðþótta, að eignarréttarákvæðið þýði það, ekki síst þeim sem deila þeirri skoðun minni að ein mikilvægasta auðlind náttúrunnar sé gróður landsins og jarðvegur. Satt að segja hefur umgengni okkar við þá auðlind verið mjög ábótavant í gegnum aldirnar og jafnvel einnig síðustu áratugi. Ég bendi því á í þessu sambandi að í tillögum stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskrá eru þau nýmæli að í nýrri stjórnarskrá skuli vera ákvæði um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og eins hitt, sem er kannski enn mikilvægara, að gróður og jarðvegur skuli njóta sérstakrar verndar og að fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum.

Virðulegur forseti. Ég hef hugsað mér að styðja þingsályktunartillögu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en hvet um leið alla þingmenn til að styðja breytingartillögu okkar um að kjósendur verði inntir eftir áliti á því hvort útiloka eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar og skattamál að frumkvæði almennings í landinu.