140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að mótsagnakenndari málflutning hafi ég ekki heyrt í langan tíma. Var ekki sagt hér að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt frumkvæði að því að halda þjóðfund og leita þannig til fólksins? Það er leið sem við stungum upp á til að draga úr starfstíma stjórnlagaráðsins eða stjórnlagaþingsins og spara þjóðinni kostnað af því að hefja hér undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði til að leitað yrði til fólksins með ákvarðanir um Evrópusambandsaðildarumsóknina og Icesave-samningana? Er það ekki hæstv. ráðherra sem þá forðaðist fólkið? Hvernig litist hæstv. ráðherra á að við leituðum til fólksins í landinu og spyrðum það hvaða fólk ætti að sitja á Alþingi? Eigum við ekki að bjóða fram og halda almennar þingkosningar? Ekki hræðist ég það. Ég er hræddur um að hæstv. ráðherra sé sá sem er hræddur við að spyrja um hug fólksins í landinu.

Hins vegar er látið í það skína að Sjálfstæðisflokkurinn óttist álit fólksins í landinu með einhverjum hætti á fullkomlega rakalausum grundvelli. Staðreynd málsins er sú að það hefur legið fyrir alveg frá því að síðast fóru fram forsetakosningar að forsetakosningar færu að þessu sinni fram 30. júní 2012. Engu að síður hafa menn haldið svo illa á málinu að þeir koma fram með þingsályktunartillöguna í þessari viku, sömu viku og fresturinn rennur út, (Gripið fram í: Þú vildir ekki taka það …) og hafa fengið það á dagskrá í forgang. Ég hef flutt eina ræðu í þessari síðari umræðu og er strax sakaður um að ástunda hér málþóf. Þessi málflutningur er með miklum ólíkindum og hann stafar frá þeim sem hræddastir eru við fólkið í landinu og hafa samfellt í þrjú ár gjörsamlega klúðrað því ferli sem ávallt hefur verið unnið í rólegheitum í góðu samstarfi allra flokka og farið með það einhvern veginn út af veginum og út í skurð. Menn verða að horfast í augu við ábyrgð sína (Forseti hringir.) á þeirri vinnu, þá ábyrgð sem menn bera á því að þrjú ár skuli hafa farið til spillis þannig að við höfum ekki enn (Forseti hringir.) hafið efnislega skoðun málsins á Alþingi.