140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að sjálfstæðismönnum er enginn leikaraskapur í hug ólíkt sumum öðrum hv. þingmönnum hér þegar verið er að ræða málefni stjórnarskrárinnar — enginn leikaraskapur, þetta er fullkomin alvara. En hins vegar er umgengni sumra stjórnarliða um þetta mál á þann veg að maður skyldi ætla á stundum að þeir vissu vart á hvaða leið þeir væru. Það kann vel að vera að það sé rétt að hv. þm. Jón Bjarnason og hæstv. forsætisráðherra séu sömu skoðunar varðandi tiltekin atriði í þeim tillögum sem liggja fyrir. Það er hins vegar alveg óhætt að fullyrða að það væri meira í ætt við fyrri umræðu hv. þingmanns að taka örlítið sterkar til orða um þann ágreining sem birtist í þeim orðaskiptum sem fóru á milli þeirra tveggja hv. þingmanns og hæstv. forsætisráðherra hér í morgun. Það er einstæður atburður í sögu þingsins hvernig þau samskipti fóru fram og með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á slíkt hér í sölum þingsins þegar fyrrum samstarfsmenn, eða raunar núverandi að einhverjum hluta, eiga í hlut. Orðræða verkstjórnandans til undirsáta síns í þeim efnum var fyrir neðan allar hellur. (Gripið fram í: … þjóðaratkvæðagreiðslu)

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna held ég að þetta sé ákveðinn hluti af því þegar við erum að meta möguleikann á því hvort þetta mál gengur fram í atkvæðagreiðslu eða ekki.

Varðandi aðkomu landskjörstjórnar minni ég hv. þingmann á það að það er bara örstutt síðan landskjörstjórn skilaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd athugasemdum sínum þrátt fyrir allan þennan tíma (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður nefndi svo réttilega í andsvari sínu.