140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Til að ítreka það sem ég sagði áðan, og ég skildi orð hv. þingflokksformanns Samfylkingarinnar með þeim hætti, þá er ekki verið að gera hér neina tilraun til að hefta umræðu um málið nema síður sé. Hér hefur farið fram ákaflega gagnleg og yfirgripsmikil umræða og mér hefur verið lofað yfirgripsmiklum og djúpum ræðum í kvöld af ákveðnum þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem ég bíð spenntur eftir og hvet þá til að tala sem lengst í málinu sem slíku. Við óskum eftir upplýsingum um hvað áætlað er að atkvæðagreiðsla um málið taki langan tíma, þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu geta síðan talað um málið fram í nóttina og til morguns mín vegna, en að við verðum upplýst um hvort til standi að fara í atkvæðagreiðslu um málið í kvöld því að það skiptir máli varðandi framgang málsins.