140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að hlusta hér á hv. þingmann. Ég tók þátt í umræðunni í dag og þá talaði enginn um að þetta væri mikilvægasta málið og að við værum að breyta stjórnarskránni. Af því að hæstv. ráðherra var að vitna í umræðuna þá átti ég hér samræðu við hv. þm. Helga Hjörvar sem fór allt öðrum orðum um þetta og ég þykist vita að hv. þm. Helgi Hjörvar þekki málið betur en hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson, með fullri virðingu fyrir honum.

Hér eru til lög, virðulegi forseti, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, og það er bara augljóst að meiri hluti þingmanna, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, veit ekki af því. Þeir keyrðu þetta mál í gegn og ef þeir vilja koma með þjóðaratkvæðagreiðslu er það ekkert bundið við kvöldið í kvöld. Hvaða vitleysa er þetta, hvaða þvæla er hér í gangi?

Á hvaða tímapunkti varð þetta aðalmálið í umræðunni? Þetta kom ekki fram hér í dag. (Forseti hringir.) Menn hafa verið að tala um að þetta væri bara smáskoðanakönnun sem væri æskilegt að gera á þessum degi (Forseti hringir.) en allir vita að þetta er vanbúið. (Forseti hringir.) Og talandi um lýðræðislegan málflutning og vinnubrögð, það á eftir að senda málið til umsagnar. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð.)