140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:17]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að þessar minni útgerðir vítt og breitt um landið hafa staðið mjög veikt enda er líka nefnt, man ekki hvort það er í þessu frumvarpi eða hinu, að nærri því of margar sjávarbyggðir séu að reyna að halda úti útgerð og fiskvinnslu. Mér finnst þeim hafa fækkað nóg.

Sú leið sem þarna er farin er að ná fjármagni inn til ríkisins og að ríkið deili eftir atvikum út frá sér, út úr viðkomandi samfélagi. Ég benti áðan á raforkukerfið sem ríkið ætlaði að koma inn í með jöfnunaraðgerðir en hefur ekki staðið við það eins og lofað var. Ég tel þess vegna að við eigum að fara mjög varlega í að innheimta með beinum hætti gjald af atvinnugreininni sjálfri, einstaka útgerðum, og leggja inn í ríkissjóð. Við eigum að horfa á hvaða áhrif það hefur og sjá til þess að hlutur þess fjármagns renni aftur til sjávarbyggðanna þannig að beintengingin milli reksturs útgerðarinnar og viðkomandi sjávarbyggða sé tryggð. Við vorum með slíkan skatt fyrir nokkrum árum sem var einmitt rekstrartengdur viðkomandi fyrirtæki með byggðarlögum sem ég held að hafi verið gott.

Þarna er að mínu viti horft allt of mikið til stórmarkaðslausna. Félagslegi þátturinn og öryggi sjávarbyggðanna lýtur í lægra haldi og það er ekki í samræmi við tillögur mínar í þessum efnum.