140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[15:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að þegar málið var til atkvæðagreiðslu á sínum tíma á vordögum 2009 þá áskildi ég, fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna, okkur að sjálfsögðu fyrirvara um það að endurmeta stöðu þessa máls ef nýjar breyttar forsendur kæmu upp. Við erum í þessum viðræðum á grundvelli leiðsagnar sem fyrst og fremst er fólgin í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem grundvallarhagsmunir Íslands eru skilgreindir. Það er í mínum huga alveg ljóst að ef upp er komin sú staða að þeim grundvallarhagsmunum er af einhverjum ástæðum stefnt í tvísýnu þá eru komnar upp slíkar aðstæður.

Ég hef að sjálfsögðu ekki á móti því að Alþingi ræði þetta og við erum reyndar að því og kannski fæ ég þriðju fyrirspurnina um sama efni á eftir. Að sjálfsögðu gerum við það í viðkomandi þingnefnd o.s.frv. Það er eðlilegt að leggja mat á stöðuna, ég geri engar athugasemdir við það, bæði þá samningaviðræðurnar sjálfar og hvernig þær standa og þar snúa áhyggjur okkar fyrst og fremst að því að það hefur dregist um of að mikilvægir kaflar opnuðust. Við leggjum á það ríka áherslu að það gerist og þá má kannski velta fyrir sér pólitískum hliðum málsins. Ég sé ekki að í neinu tilviki hafi (Forseti hringir.) nokkrum tekist að færa fram sönnur á að í einu eða neinu hafi verið hvikað frá því að standa vörð um þá grundvallarhagsmuni sem skilgreindir voru vorið 2009. Meðan svo er ekki þá hafa menn ekki mikið efni í upphlaup sín um þessi mál.