140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

tvíhliða viðskiptasamningar við Kína og fleiri ríki.

[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. utanríkisráðherra um viðskiptasamninga. Það kann að skjóta skökku við eftir síðustu ræðu, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að ræða tvíhliða viðskiptasamninga eða fjárfestingarsamninga við Kínverja, sem hér voru nefndir áðan af öðrum óskemmtilegri sökum, að ræða þá vinnu sem var í gangi varðandi fríverslunarsamning við Kína. Ætlar ráðherrann sér að ræða slíka samninga við fulltrúa Kína þegar þeir koma hingað? Er það á dagskrá ráðherrans? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum því opnu að eiga góð samskipti á sviði viðskipta við sem flestar þjóðir.

Nú er orðið ljóst að Evrópusambandið er að hóta Íslendingum viðskiptaþvingunum. Láti það hótanirnar ganga eftir, sem ég leyfi mér reyndar að efast um, er mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að vera búnir að kanna hvernig gengur að selja vörur og þjónustu til annarra landa. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. utanríkisráðherra sé með mikla vinnu í gangi við að halda opnum leiðum fyrir viðskipti Íslendinga við önnur ríki láti Evrópusambandið verða af hótunum sínum. Það er ekki nóg með að það blandi sér inn í málarekstur gagnvart Íslandi og styðji þar með óréttmætar kröfur ESA heldur hefur það hótað viðskiptaþvingunum vegna svokallaðrar makríldeilu.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort í gangi séu einhverjar viðræður um tvíhliða viðskiptasamninga milli Íslands og einhverra annarra ríkja, til að mynda Bandaríkjanna, sem við öll vitum að muni ekki verða ef við göngum í þetta Evrópusamband — sem verður vitanlega aldrei. Þá er mikilvægt að við sóum ekki tímanum í að ræða ekki við aðrar þjóðir. Þess vegna spyr ég hvort einhverjar slíkar viðræður séu í gangi og hvort viðskipti milli Kína (Forseti hringir.) og Íslands verði rædd á fundum með þeim sem hingað eru að koma.