140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

frekari aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi.

501. mál
[16:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Varðandi fyrstu spurninguna, þ.e. hvort vinna sé hafin við gerð frumvarps sem byggir á skýrslu um sameiginlegt átak, er því til að svara að í almennum eftirlitsaðgerðum á undanförnum árum hefur þess æ oftar orðið vart að skattyfirvöld hafa ekki skjótvirk úrræði ef aðilar fara ekki að tilmælum um lagfæringar. Í eftirlitsátakinu „Leggur þú þitt af mörkum?“ sem hófst 14. júní 2011 og lauk fyrir fáum vikum kom skýrar í ljós en áður hversu mjög skattyfirvöld vantar slík úrræði. Ástæða þess að það hefur orðið meira áberandi er að í fyrrasumar var farið í 2 þús. heimsóknir í fyrirtæki. Athugasemdir voru gerðar við nokkur hundruð aðila, einkum um formbrot, frágang gagna og hvernig staðið var að skilum ýmissa gjalda, svo sem lífeyrissjóðsgjalda, staðgreiðslu og stéttarfélagsgjalda. Flestir rekstraraðilar fóru að tilmælum ríkisskattstjóra um úrbætur, en nokkrir tugir aðila hafa engu svarað. Oftast er um að ræða það sem kalla má minni háttar brot sem ekki er líklegt að mundu sæta ákæru ef vísað yrði til lögreglumeðferðar. Við þær aðstæður vantar úrræði og er það mjög til vansa. Úrræðin gætu verið einhvers konar dagsektir, lokun starfsstöðva eða svipting möguleika á að stunda atvinnurekstur, svo sem að fella aðila af virðisaukaskattsskrá. Ríkisskattstjóri hefur falið hópi starfsmanna að yfirfara þau álitamál sem upp kunna að rísa við úrræði af þeim toga sem fyrr er lýst, þar með talið hvort hætta sé á að dagsektir hindri refsingu á síðari stigum.

Spurt er hvort vænta megi frumvarps í þessa veru á Alþingi fljótlega. Athugun ríkisskattstjóra verður lögð fyrir fjármálaráðuneytið þegar því verki lýkur, en þess er ekki að vænta að svo geti orðið fyrr en næsta haust og frumvarp getur því ekki orðið tilbúið á þessu þingi.

Varðandi það hvort í undirbúningi séu eða fyrirhugaðar frekari aðgerðir af hálfu ríkisskattstjóra til að sporna við svartri atvinnustarfsemi er því til að svara að ríkisskattstjóri rekur tæplega 40 manna eftirlitseiningu sem hefur virkt eftirlit með skattskilum af margvíslegum toga. Eftirlitsaðgerðir á árinu 2011 skiluðu 6 milljarða tekjuauka í ríkissjóð. Eftirlitsaðgerðir eru reglulegar, en átakið „Leggur þú þitt af mörkum?“ er annars vegar hugsað sem áróðursherferð fyrir bættum skattskilum og hins vegar leið til að bæta atvinnuhætti í landinu.

Nýtt átak mun hefjast á næstu vikum. Ríkisskattstjóri mun hrinda af stað viðamiklu eftirliti með virðisaukaskattsskilum. Reynslan hefur sýnt að samhliða virðisaukaskattssvikum eru önnur skattskil oft og tíðum athugunarverð, svo sem að ekki er staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda þar sem starfsmenn eru á duldum launum. Slíkt er dæmigerð svört atvinnustarfsemi.

Átakið í virðisaukaskattseftirlitinu hefur krafist nokkurs undirbúnings sem hefur staðið yfir frá því snemma á þessu ári og er reiknað með að eftirlitsaðgerðir hefjist um næstu mánaðamót, apríl/maí.

Þá hefur ríkisskattstjóri kynnt fyrir fjármálaráðuneytinu hugmyndir að auglýsingaherferð í því skyni að bæta skattskil. Slík herferð kostar nokkurt fé og það er í athugun hjá ráðuneytinu hvernig brúa megi það bil.

Verður leitað samstarfs við aðila vinnumarkaðarins í slíkum aðgerðum, líkt og gert var með góðum árangri á síðasta ári? spyr hv. þingmaður. Svarið er að átakið sem til er vitnað með Samtökum atvinnulífsins og ASÍ var hugsað sem tímabundið átak við ákveðnar formathuganir sem fyrr er lýst. Samkvæmt lögum eru athuganir á beinum skattskilum á forræði skattyfirvalda en ekki aðila vinnumarkaðarins. Athuganir á bókhaldi með tilliti til þess hvort skattskil séu rétt, m.a. virðisaukaskattsskil, geta skattyfirvöld ekki framselt í hendur aðila sem ekki eru til þess bærir lögum samkvæmt að sinna því eftirliti.

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort framhald verði á samstarfi við ASÍ og SA en það kemur vel til greina, enda er reynslan af slíku í aðalatriðum góð. Við þær aðstæður er þó mikilvægt að þess sé gætt að slíkar aðgerðir rúmist innan laga og bitni ekki á þeim eftirlitsaðgerðum sem lögum samkvæmt eiga að miða að því að ganga úr skugga um réttmæti skattskila og að tryggja endurákvörðun opinberra gjalda, svo sem almennu skatteftirliti er ætlað.