140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

áframhaldandi þróun félagsvísa.

616. mál
[17:12]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu eins og ég sagði áður og vil vekja athygli á því hversu umfangsmikil söfnun á upplýsingum hefur þegar farið fram á félagsvísum þar sem komin er út skýrsla upp á rúmlega 100 blaðsíður, sennilega nálægt 105 blaðsíður. Hún skiptist í kafla, m.a. um lýðfræði, þ.e. mannfjölda og hvernig hann skiptist, fæðingar, frjósemi o.s.frv. Þarna er kafli um jöfnuð, tekjur heimila, ráðstöfunartekjur, húsnæðisstöðu, skuldir heimilanna o.fl. — að vísu nær það til 2010. Sjálfbærni, þ.e. um börn í leikskóla, skólasókn og annað, heilsufarskafli þar sem fylgt er nákvæmum vísum um þá þætti. Síðan kafli sem nefnist Samheldni þar sem mæld er ánægja og væntingar fólks í samfélaginu, traust fólks til stofnana og stjórnmálaflokka o.s.frv. Hér er gríðarlegt magn af upplýsingum sem ég hvet fólk til að nýta sér og ekki hvað síst þingmenn þannig að við getum tekið umræðuna á góðum og gagnlegum grunni.

Varðandi það að greina vanda heimilanna, af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi það, þá er rétt hjá honum að ekki liggja alltaf fyrir á hverjum tíma nýjustu og bestu upplýsingar. En við höfum skattframtölin, þar er verið að vinna núna og er komin greinargerð sem þarf að kynna fljótlega. Hún er einmitt um stöðuna um síðustu áramót þar sem verið er að greina nákvæmlega hvar þarf að grípa inn í til að ná utan um þann hóp sem er í hvað verstum greiðsluvanda.

Þetta er nákvæmlega vandamálið sem hefur verið á undanförnum árum og maður sér þegar maður sest inn á Alþingi eða verður ráðherra að það er verið að taka margar ákvarðanir, og þannig hefur það greinilega verið á undanförnum árum, án þess að hafa nýjar tölfræðilegar upplýsingar. Þær eru til í OECD-skýrslum sem koma frá ráðuneytum og stofnunum en þær eru gjarnan eins og tveggja ára gamlar og það er erfitt að stýra málaflokkum eða ráðuneyti ef maður veit ekki nákvæmlega hver staðan er á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Það er eitt af brýnustu verkefnunum í samfélaginu að upplýsingamiðlun og söfnun sé með þeim hætti að ákvarðanataka geti byggst á nýjum upplýsingum á hverjum tíma.