140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það var mörgum brugðið við að heyra það á dögunum að skoðanakannanir sýni að Sjálfstæðisflokkurinn eigi vísan stuðning tæps helmings þjóðarinnar. Sem betur fer var það ekki svo þegar nánar var að gáð þá og ekki ástæða til að fara á taugum yfir því því að tæpur helmingur aðspurðra svaraði ekki. Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim hópi eigum við stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar úr öllum flokkum vísan betri stuðning en þarna kom fram þegar nær líður kosningum. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt, frú forseti og hv. þingmaður að menn séu óþreyjufullir þegar aðeins er eftir eitt ár af kjörtímabilinu og stór mál ríkisstjórnarinnar og stefnumál ríkisstjórnarflokkanna eru ekki komin í höfn. Flestir sanngjarnir menn viðurkenna þó að mjög mikið hefur áunnist á þeim þremur árum sem þessi ágæta stjórn hefur verið við völd. Um það vitna allar opinberar tölur og sanngjarnir menn í flestum flokkum staðfesta það, meira að segja hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Kastljósi í gær sem lýsti því yfir að allir mælikvarðar væru lakari í Evrópusambandinu. Það var athyglisverð yfirlýsing úr þeirri átt.

En það er mikið óunnið og nú þegar eru komin í þingið mikilvæg mál sem við ætlum okkur að ljúka fyrir vorið og við lofuðum í kosningabaráttunni að ljúka. Fiskveiðistjórnarkerfið og veiðigjaldið hefur verið nefnt nú þegar. Ég vil leyfa mér að nefna rammaáætlunina, nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti og nýtt atvinnuvegaráðuneyti og þó að það sé eins og að nefna snöru í hengds manns húsi vil ég nefna stjórnarskrána, frú forseti, því að við höfum sagt að þjóðin muni fá tækifæri til að segja álit sitt beint á tillögum að nýrri stjórnarskrá og við það ætlum við að standa.

Eitt vil ég nefna að lokum, frú forseti. Það er ekki hægt að bíða lengi eftir svari frá lífeyrissjóðunum um það hvort þeir ætla eða ætla ekki að taka þátt í því að létta skulda- og greiðsluvanda heimila með lánsveð. Því máli þarf að ljúka á allra næstu dögum. Ég á von á því að þegar þessu þingi lýkur (Forseti hringir.) og þingið hefur lokið þeim verkefnum sem ég hef talið upp og fyrir liggja þá munu fleiri lýsa stuðningi við þessa ágætu ríkisstjórn en í síðustu könnun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)